Ævisögu Reynis Traustasonar lekið

Færsla Jóns Trausta um lekann til Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns.
Færsla Jóns Trausta um lekann til Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns. Skjáskot

Hæstaréttarlögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson birti á samfélagsvefnum Facebook í gær myndir af ævisögu Reynis Traustasonar, fyrrverandi ritstjóra DV, og vitnar til þess sem í henni kemur fram. Sonur Reynis og fyrrverandi framkvæmdastjóri DV segir að eintakinu hafi verið stolið úr tölvupósthólfum fyrrverandi starfsmanna blaðsins.

Var að ljúka við lestur á handriti af sjálfsævisögu Reynis Traustasonar þ.e.a.s. þeim eitthvað um tvöhundruð síðum sem mér bárust óvænt og óumbeðið. Margt fróðlegt þar og merkilegt hvað blaðamaðurinn á auðvelt með að segja rangt frá og skýra allt sér í hag,“ segir Sigurður á Facebook. 

Sigurður birtir einnig brot úr óútkominni bók Reynis. „Til að undirstrika sigurinn var hann með hatt og kanínuglott sem lýsti gleði hans. Þetta var eins konar sigurmerki. Hann hafði náð höfuðleðri mínu og flaggaði því,“ skrifar Reynir í bókinni um það þegar Sigurður mætti með hatt á stjórnarfund DV, en hattar eru nokkurs konar einkennismerki Reynis.

Reynir tjáir sig einnig um málið á sama vettvangi og segir að Sigurði ætti að vera fulljóst að það sé lögbrot að fara inn á netföng starfsmanna með þeim hætti sem þarna hafi gerst. „Nokkur netföng fyrrverandi starfsmanna eru enn opin. Fékk um það ábendingu fyrir nokkrum dögum að núverandi framkvæmdastjóri DV hefði sent út gögn sem fengin voru með þessum hætti. Nú liggur fyrir að Sigurður G. hefur komist í einkapóstana og birtir á Facebook-síðu sinni hugverk sem er stolið.“


Hann segist jafnframt hafa staðfest að núverandi stjórnendur DV, ritstjóri og framkvæmdastjóri hafa aðgang að umræddum tölvupósthólfum.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert