Margrét er himnasending

Forseti Íslands og Margrét við athöfnina í dag.
Forseti Íslands og Margrét við athöfnina í dag. mbl.is/Golli

Nýr verndari Fjölskylduhjálpar Íslands er Margrét Hrafnsdóttir og var það tilkynnt við hátíðlega athöfn í Ráðhúsinu í dag. Í dag voru jafnframt fyrirtæki verðlaunuð sem hafa styrkt Fjölskylduhjálp með einum eða öðrum hætti. Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, segir Margréti vera himnasendingu fyrir samtökin.

„Í september í fyrra hafði Margrét samband við okkur en þegar hún gekk í hjónaband bað hún gesti sína um að leggja fjárframlög inn á Fjölskylduhjáp Íslands og margir hverjir gerðu það. Í framhaldinu jókst vinskapurinn og við báðum Margréti um að verða verndarinn okkar því að það var stórt verkefni framundan,“ segir Ásgerður Jóna í samtali við mbl.is.

Þetta stóra verkefni er Íslandsforeldri en það snýst um að safna pening í sérstakan sjóð fyrir barnafjölskyldur. „Síðustu ár hefur okkar helsta vandamáli verið að við erum kannski ekki að gefa hollasta matinn því fjöldinn er svo mikill,“ segir Ásgerður. „Hugmyndin á bakvið Íslandsforeldri er að safna í sérstakan sjóð þar sem gerir okkur kleift að kaupa fisk, kjöt, grænmeti, ávexti og lýsi og reyna að koma þessari matvöru til barnafjölskyldna.“

Ásgerður segir að dagskráin í dag hafi verið yndisleg og mjög hátíðleg. „Þarna voru mörg fyrirtæki verðlaunuð sem hafa stutt okkur síðan við opnuðum fyrir ellefu árum síðan.“

Í fyrsta skipti mun Fjölskylduhjálp Íslands starfa á fjórum stöðum fyrir þessi jól. Reykvíkingar geta sótt aðstoð í Iðufelli 14, Kópavogsbúar í Hamraborg 9, Hafnfirðingar að Strandgötu 24 og Suðurnesjamenn að Baldursgötu 14 í Reykjanesbæ. 

Er þetta í fyrsta skipti sem Fjölskylduhjálp starfar í Kópavogi og Hafnafirði en hún hefur síðustu fimm ár starfað í Reykjanesbæ fyrir jólin samhliða í Breiðholtinu. Ásgerður segir með þessu sé Fjölskylduhjálp Íslands að færa þjónustuna nær þeim sem hana þurfa og létta á viðskiptavinum sínum. 

„Það er alveg sama hversu stórt húsnæði við höfum. Það skapast alltaf ákveðin örvænting hjá fólki í desember. Við erum kannski með 3-4 starfsstöðvar á hverjum stað, ein er matur, ein er gosdrykkir, ein er með jólapakka jólapakkar og svo er sælgætið. Þannig fá allir það sem hentar hverjum og einum. En það er alveg sama hvað við erum á stórum stöðum þetta gengur ekki upp ef við erum með mörg sveitarfélög,“ segir Ásgerður. „Svona verður miklu rólegra yfir.“

Að sögn Ásgerðar er Margrét nú verndari Fjölskylduhjálpar og Íslandsforeldris. Verður hún samtökunum innan handar og ákveðið andlit. 

„Hún er himnasending til okkar. Hún er mjög frjó og skapandi og við erum afskaplega þakklátar að vera komin með hana í okkar lið,“ segir Ásgerður að lokum. 

Vefur Fjölskylduhjálpar Íslands. 

Hluti af hópnum í Ráðhúsinu í dag.
Hluti af hópnum í Ráðhúsinu í dag. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert