Borga í strætó með símanum

Hægt er að greiða fyrir staðgreiðslufargjald í Strætó með snjallsímum …
Hægt er að greiða fyrir staðgreiðslufargjald í Strætó með snjallsímum frá og með deginum í dag. Rax / Ragnar Axelsson

Farþegar Strætó á höfuðborgarsvæðinu geta í fyrsta skipti í dag greitt fyrir far með snjallsímum eftir að smáforrit fyrirtækisins var uppfært. Daði Ingólfsson,  yfirmaður upplýsingatæknimála Strætó, segir þetta fyrsta skrefið í þá átt að farþegar geti greitt með rafrænum hætti.

Uppfærsla á útgáfu smáforrits Strætó fyrir Apple-snjallsíma var send út á miðnætti en Daði segir að Android-útgáfan verði aðgengileg nú í dag. Farþegar eru þegar byrjaðir að nýta sér þessa nýju þjónustu.

„Það gengur allt mjög vel og athugasemdalaust. Fólk er byrjað að kaupa miða nú þegar og nota í smáforritinu. Það hefur ekki borið á neinum hnökrum hingað til. Þetta er fyrsta skrefið í þá átt að fólk geti greitt rafrænt. Þú getur farið þarna inn og sett inn kreditkortaupplýsingar og geymt þær. Þú gerir það bara einu sinni. Svo eru þetta bara tveir smellir til þess að kaupa miða,“ segir hann.

Til að byrja með er aðeins hægt að kaupa staðgreiðslufargjald sem kostar 350 krónur fyrir alla aldurshópa innan höfuðborgarsvæðisins. Í fyllingu tímans segir Daði að ætlunin sé að tímabilskort og greiddar áskriftir verði einnig hægt að nota í gegnum snjallsíma og að þjónustan nái til landsbyggðarleiða Strætó. Það gæti gerst á næsta ári og því þarnæsta.

„Þetta fer síðan náttúrulega bara eftir reynslunni og hvað við lærum af þessari uppfærslu. Það er til áætlun fyrir næstu 3-4 ár um þróun á þessu smáforriti en hún getur auðvitað breyst eftir því sem reynslan kennir okkur. Þetta er auðvitað í fyrsta skipti sem Strætó stígur þetta skref,“ segir Daði.

Fleiri möguleikar gætu opnast síðar

Smáforritið er eigið kerfi Strætó en það byggir þó á fyrirmyndum frá Skandínavíu, sérstaklega frá Ósló í Noregi að sögn Daða. Uppfærslan nú útilokar hins vegar ekki aðra möguleika á rafrænum greiðslum.

„Núna er sjónræn staðfesting. Þú sýnir vagnstjóranum miðann á símanum. Það er ýmis konar virkni í símanum sem hann sér sem segir honum að þetta er gildur miði. Eitt af næstu skrefum verður að rafvæða þessa staðfestingu. Þá verða settir einhvers konar skannar í strætó og þá þarf bílstjórinn ekki að staðfesta það sjónrænt. Með því skrefi gætu komið aukamöguleikar á að greiða til dæmis með snertilausum greiðslukortum og þess háttar sem verða þá vonandi komin í umferð. Það er í raun ekki hægt núna, það eru fá slík kort í umferð. Þessi rafræni greiðsluheimur breytist svo hratt. Við erum með áætlun um að innleiða þetta allt saman en með þeim fyrirvara að þetta getur breyst með framþróun tækninnar,“ segir Daði.

Lestu nánar um nýja smáforrit Strætó á vefsíðu fyrirtækisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert