Evrópskur lax sagður íslenskur

mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Flutt hafa verið 300 tonn af laxi til Rússlands frá því í október undir þeim formerkjum að um íslenskar afurðir sé að ræða frá fyrirtækinu Skinney-Þinganesi en fyrirtækið stundar þó ekki laxeldi þó það hafi selt framleiðslu sína meðal annars til landsins.

Fram kemur á fréttavef Bændablaðsins að laxinn hafi verið fluttur ólöglega frá Evrópu til Rússlands í gegnum Eistland að mati rússneska matvælaeftirlitsins. Merkingar sendinganna og heilbrigðisvottorð frá Matvælastofnun eru fölsuð samkvæmt fréttinni en Bændablaðið vísar í fréttabréf Matvælaeftirlits Rússlands í þessum efnum. Fram kemur að málið sé litið alvarlegum augum og sé í rannsókn. 

Eins og fjallað hefur verið um hafa rússnesk stjórnvöld gripið til viðskiptaþvingana gagnvart ríkjum Evrópusambandsins og fleiri ríkjum vegna þeirra viðskiptaþvingana sem ríkin hafa gripið til gagnvart Rússlandi. Ísland er hins vegar ekki eitt þeirrar ríkja sem aðgerðir Rússa ná til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert