Fær að vera í réttarsalnum

Hæstiréttur hefur vísað frá kæru konu sem óskaði eftir því að fyrrverandi eiginmaður henni viki er hún gæfi skýrslu fyrir dómi vegna ofbeldis sem hann beitti hana. Héraðsdómur hafi ekki fallist á beiðni konunnar og Hæstiréttur vísaði kærunni frá þar sem hún stæðist ekki lög.

Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 skal í skriflegri kæru til héraðsdómara greint frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæran er reist á. Í skriflegri kæru sóknaraðila til héraðsdóms var hvorki greint frá kröfu um breytingu á hinum kærða úrskurði né þeim ástæðum sem hún væri reist á. Af þeim sökum er málinu vísað frá Hæstarétti.

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa í október árið 2012  rifið í hár eiginkonu sinnar, lamið í hægri öxl hennar og sparkað í hægri mjöðm hennar, með þeim afleiðingum að hún hlaut eymsli yfir hægra kinnbeini, þrota og eymsli vinstra megin á höfuðleðri og eymsli þar yfir, eymsli aftan á hægri öxl, húðblæðingar á vinstri upphandlegg, mar og eymsli á vinstra handarbaki og eymsli utanvert á hægri mjöðm.

Þegar krafa sækjanda var lögð fram um að eiginmaðurinn fyrrverandi myndi víkja úr salnum og hlýða á vitnisburð hennar úr hliðarsal kom fram að það yrði konunni afar þungbært ef hún þyrfti að gefa skýrslu að manninum viðstöddum, og að það myndi hafa áhrif á framburð hennar.

Um væri að ræða heimilisofbeldi og að konan óttaðist frekara ofbeldi af hálfu mannsins. Hafi hún lýst því yfir við lögmann sinn og sækjanda, að hún óttaðist ákærða og hafi því fengið neyðarhnapp hjá lögreglu í september sl. Málið hafa tekið mikið á brotaþola og var í því sambandi vísað til vottorðs frá Kvennaathvarfinu sem lægi fyrir í málinu.

Maðurinn vísaði hins vegar til stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu og að öll frávik frá þeirri meginreglu að ákærði eigi rétt á því að vera viðstaddur skýrslutöku, verði að skýra þröngt.

Samkvæmt 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála á ákærði rétt á því að vera við aðalmeðferð máls. Í 1. mgr. 123. gr. sömu laga er heimild til þess að víkja ákærða úr þinghaldi meðan vitni gefur skýrslu, telji dómari að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess.

 Í málinu var vísað til vottorðs frá Kvennaathvarfinu sem staðfestir 19 komur og viðtöl við brotaþola sem gefur vísbendingar um hvernig sambúð þeirra hefur verið háttað.

Lögreglan á Suðurnesjum hafnaði beiðni konunnar um nálgunarbann í júní 2014, á þeim forsendum að lögreglan hafi ekki haft afskipti af ákærða og brotaþola vegna annarra mála en í ákæru greinir frá árinu 2012. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að ákærði og brotaþoli hafi síðan byrjað sambúð aftur í desember 2012, eftir meint brot þessa máls. Mál þetta er síðan tekið upp að nýju að beiðni brotaþola í júní 2014. Ekki voru lögð fram vottorð sérfræðinga, svo sem sálfræðings um að nærvera ákærða gæti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og gæti haft áhrif á framburð þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert