Hæstiréttur klofnaði í meiðyrðamáli

Egill Einarsson í héraðsdómi í fyrra.
Egill Einarsson í héraðsdómi í fyrra. mbl.is/Rósa Braga

Hæstiréttur hefur staðfest sýknudóm í meiðyrðamáli sem Egill Einarsson höfðaði á hendur Inga Kristjáni Sigurmarssyni fyrir ærumeiðandi aðdróttun. Hæstaréttur klofnaði í málinu, en meirihlutinn segir að tjáning Ingvars hafi verið innan marka þess frelsis sem honum er tryggt í stjórnarskrár.

Alls dæmdu þrír Hæstaréttardómarar í málinu. Tveir þeirra staðfesta dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í nóvember í fyrra. Einn skilaði hins vegar sératkvæði, en hann segir að ummæli Ingvars hefðu falið í sér grófa aðdróttun um að Egill hefði gerst gerst sekur um grafalvarlegt refsivert afbrot. Hann féllst því á kröfu um ómerkingu ummælanna og telur rétt að Ingvar greiði Agli 200.000 kr. í miskabætur.

Egill höfðaði meiðyrðamál á hendur Inga sem teiknaði ókvæðisorð á mynd af Agli og birti á Instagram. Í stefnunni var þess krafist að Ingi yrði dæmdur til refsingar fyrir ærumeiðandi aðdróttanir með því að hafa breytt ljósmynd af Agli þannig að hann teiknaði kross á hvolfi á enni hans, skrifaði „aumingi“ þvert yfir andlit stefnanda og „fuck you rapist bastard“ sem myndatexta og birti ljósmyndina þannig breytta á Instagram, 22. nóvember 2012.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Inga af meiðyrðum í garð fjölmiðlamannsins Egils Einarssonar í dómi sem féll 1. nóvember 2013. Egill áfrýjaði málinu til Hæstaréttar. 

Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti sem fór fram í lok október, sagði Valtýr Sigurðsson, lögmaður Inga, að virðing Egils hefði ekki beðið hnekki við birtingu myndar af forsíðu Monitors. Þetta hefði aðeins verið dropi í hafið í þeim ólgusjó sem Egill hafi kosið að róa í í gegnum tíðina.

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, lögmaður Egils, sagði við málflutninginn, að Ingi hefði deilt myndinni með rúmlega 100 milljónum notenda á Instagram. „Héraðsdómi tekst að skilja með þeim hætti að myndin hafi bara verið birt fyrir lokuðum hópi fólks. Það er mér algjörlega óskiljanlegt hvernig héraðsdómur komst að þessari niðurstöðu,“ sagði Vilhjálmur.

Þá var jafnframt, fjallað um aðalmeðferð í málinu á mbl.is og hér má sjá hvað Ingi Kristján hafði þá að segja fyrir dóminum. Egill sagði við sama tækifæri að það hefðu verið margar andvökunætur eftir að hann sá myndina.

Haukur Guðmundsson, lögmaður Inga Kristjáns í héraði, sagði í ræðu sinni að umrædd mynd hefði ekki verið af Agli heldur af Gillz. „Ummæli um skáldaðar persónur varða ekki við lög. Það er ekki hægt að meiða æru Bogomil Font,“ sagði Haukur. Á þetta féllst lögmaður Egils alls ekki. „Hann taldi sig þess umkominn að saka stefnanda [Egil] um nauðgun og kalla hann aumingja og antikrist. Og aftaka hans fór fram án dóms og laga. Og það er enginn annar en stefndi [Ingi Kristján] sem getur borið ábyrgð á birtingu og dreifingu þessarar ljósmyndar.

Héraðsdómur sýknaði Inga í nóvember í fyrra, en í dómnum kom m.a. fram að umræða um málefni Egils, þar á meðal um afdrif kæru á hendur honum, væri innlegg í almenna þjóðfélagsumræðu og tjáningarfrelsi Inga væri af þeim sökum rýmra í þessu tilviki en ella.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert