Leiti til Exeter í leit að refsingu

Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, situr á milli aðstoðarmanna …
Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, situr á milli aðstoðarmanna sinna í dómsal 101. mbl.is/Árni Sæberg

Sérstakur saksóknari fer fram á að fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur líti til þeirrar refsingar sem Hæstiréttur taldi hæfilega í Exeter-málinu þegar kemur að því að ákvarða Karli og Steingrími Wernerssonum og Guðmundi Ólasyni, fyrrverandi forstjóra Milestone, refsingu fyrir aðild þeirra að Milestone-málinu.

Í Exeter-málinu dæmdi Hæstiréttur þá Jón Þorstein Jónsson og Ragnar Zophonías Guðjónsson í 4 ára og 6 mánaða fangelsi. Saksóknari vakti þá athygli dómara sérstaklega á því að upphæðirnar í Exeter-málinu hefðu verið mun lægri en í Milestone-málinu.

Þetta kom fram á fjórða degi aðalmeðferðar í máli sérstaks saksóknara gegn Karli, Steingrími og Guðmundi sem ákærðir eru vegna greiðslna til Ing­unn­ar Werners­dótt­ur fyr­ir hluti henn­ar í Milest­one, Milest­one Import Export og Leiftra en þær námu á sjötta millj­arð króna á ár­un­um 2006 og 2007.

Jafn­framt eru end­ur­skoðend­urn­ir Hrafn­hild­ur Fann­geirs­dótt­ir, Mar­grét Guðjóns­dótt­ir og Sig­urþór Char­les Guðmunds­son, öll frá end­ur­skoðun­ar­fyr­ir­tæk­inu KPMG, ákærð fyr­ir brot gegn lög­um um end­ur­skoðend­ur. Þau Mar­grét og Sig­urþór eru enn­frem­ur ákærð fyr­ir meiri­hátt­ar brot á lög­um um árs­reikn­inga vegna viðskipt­anna.

Var Milestone óviðkomandi

Í málflutningsræðu sinni sagði Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, að málið hverfðist í stuttu máli um „gróflega misnotkun Karls, Steingríms og Guðmundar á aðstöðu sinni þegar þeir veittu úr sjóðum Milestone 5,2 milljarða króna sem Karl og Steingrímur greiddu fyrir hlutafé systur þeirra.“

Saksóknari sagði að fjármunir hefðu runnið út úr Milestone, sem enga aðkomu hefði haft að samningi á mili Ingunnar Wernersdóttur og Karls og Steingríms, án þess að vitað væri hver, hvenær eða hvort greitt yrði til baka. Engir samningar hefði legið fyrir um fjármögnun Milestone og þegar greiðslurnar voru inntar af hendi hefði myndast veruleg fjártjónshætta fyrir félagið.

Að mati ákæruvaldsins tóku Guðmundur, Karl og Steingrímur ákvörðun um fjármögnun Milestone á tímabilinu 4.-30. desember 2005. „Engir samningar liggja fyrir um að Milestone hafi tekið á sig skuldbindingu Karls og Steingríms. Þessi kaupsamningur við Ingunni var því félaginu óviðkomandi.“

Engin veð sett fyrir endurgreiðslu

Saksóknari sagði að þegar ákvörðun um Milestone var tekin hefði ekkert legið fyrir um það hvernig félagið átti að fá fjármunina endurgreidda, ekkert um það hvernig endurgreiðslan átti að fara fram eða hver yfirhöfuð átti að endurgreiða. Þá voru engin veð sett fyrir endurgreiðslunni.

Á árinu 2006 greiddi Milestone 2,1 milljarða króna með tólf mánaðarlegum greiðslum inn á bankareikning Ingunnar. Um mitt ár tvöfölduðust greiðslur Milestone og voru þá þrjú hundruð milljónir króna á mánuði. Á sama tíma lenti Milestone í erfiðleikum með að fjármagna greiðslurnar. „Karl samdi þá við Ingunni um greiðslufrest á 150 milljónum króna frá september til desember. Ingunn staðfesti þetta fyrir dómnum.“

Í stað þess fékk Ingunn 600 milljón króna vaxtaberandi kröfu á Sjóvá. „Til að það gengi upp var látið líta svo út að Sjóvá hefði tekið víkjandi lán hjá Ingunni. [...] Í samningum er tiltekið að lánsfjárhæðin hafi verið greidd til lántaka en staðreyndin er sú að Ingunn greiddi aldrei lánsfjárhæðina til Sjóvár. Í stað þess var samsvarandi krafa færð inn í bókhald Milestone, án þess að gerðir væru samningar um það.“ Þannig hefði Milestone tekið á sig skuldbindingu gagnvart Sjóvá og að sama skapi hefði Sjóvá tekið á sig skuldbindingu gagnvart Ingunni.

Lán samþykkt á milli funda

Saksóknari sagði að samþykki fyrir láni Ingunnar til Sjóvár hefði verið veitt milli funda stjórnar tryggingafélagsins. Þá hefði Þór Sigfússon, þáverandi forstjóri Sjóvár, ekki fengið þær upplýsingar fyrr en löngu síðar að lánið hefði ekki verið greitt Sjóvá heldur fært á viðskiptareikning Milestone. „Það er ljóst að allar ákvarðanir varðandi þessa víkjandi lánveitingu voru teknar af eigendum og stjórnendum Milestone.“

Hvað það varðar vísaði saksóknari til að Guðmundur hefði borið um að lánveitingin hefði verið beintengd fjármögnun hlutabréfakaupanna, Karl hefði borið um að þetta hefði verið góður fjárfestingakostur fyrir Ingunni en ekki viljað tjá sig um það frekar og Steingrímur sagst ekkert hafa vitað um þetta.

Auk þessa hefði Ingunn staðfest fyrir dómi að krafa hennar á Sjóvá hefði verið hluti af greiðslum hennar vegna sölu hlutabréfanna.

Reyndu ekki að innheimta

Greiðslur Milestone til Ingunnar voru við gerð ársreiknings ársins 2006 færðar í bókhaldið sem krafa á hendur aflandsfélaginu Milestone Import Export. Fyrir árið 2006 var krafan 2,7 milljarðar króna. Samningur var teiknaður upp og gjalddagi einn, í desember 2007.

Engin tilraun var gerð til að innheimta skuldina í desember 2007 og kvaðst fjármálastjóri Milestone hjá lögreglu hafa farið yfir það með Guðmundi hvort ekki væri rétt að setja kröfuna í innheimtu. Hann fékk þau svör að ekki ætti að reyna innheimta kröfuna. Hjá lögreglu bar Guðmundur að ákveðið hefði verið að gera ekki neitt með kröfuna.

Saksóknari sagði að báðir hefðu þeir breytt framburði sínum fyrir dómi og haldið því fram að lánið hefði verið framlengt munnlega. „Ekkert bendir til þess að ákærðu hafi haft endurgreiðsluvilja,“ sagði saksóknari og síðar að eigendur Milestone hefðu greinilega litið á Milestone Import Export sem einskonar ruslakistu.

Stóð aldrei til að greiða

Við gerð ársreikning ársins 2007 var sami hátturinn hafður á og kröfu upp á 2,4 milljarða króna bætt við eldri kröfu. „Á þessum tíma lá lánasamningur fyrir um fyrri hluta kröfunnar, sem hafði þá verið gjaldfallinn í tvo mánuði. Því voru eignfærðar kröfur upp á 5,2 milljarða króna í bókhald Milestone. Það stóð ekkert annað til en að Milestone myndi eitt og hjálparlaust fjármagna kaup þeirra bræðra.“

Enn fremur benti saksóknari á að þrátt fyrir að Karl og Steingrímur greiddu aldrei krónu fyrir hlutafé systur þeirra greiddu þeir sér út gríðarháan arð, eða um einn milljarð fyrir árin 2005, 2006 og 2007.

Með háttsemi sinni hefðu ákærðu valdið Milestone tjóni og komið í veg fyrir að hægt væri að greiða lánardrottnum félagsins. Milestone var tekið til gjaldþrotaskipta í september 2009, kröfur í búið námu um 80 milljörðum króna og er skiptum ólokið. Saksóknari sagði ljóst að þau umboðssvik sem ákærðu væru gefin að sök væru afar alvarleg og vörðuðu gríðarlega háa upphæð, þvert gegn hagsmunum lánardrottna félagsins en til persónulegra hagsbóta fyrir Karl og Steingrím. Líta yrði til þess við ákvörðun refsingar.

Skjal útbúið eftir gjaldþrot

Endurskoðendurnir þrír eru ákærðir fyrir að hafa átt þátt í því að fela slóð stjórnenda Milestone með því að „horfa algjörlega framhjá því að krafan í bókhaldinu var svo óviss og endurgreiðslan ótrygg og ósennileg að útilokað væri annað en að meta hana verðlausa.“ Þá hefðu þeir bætt inn í endurskoðunarmöppur gögnum eftir að ársreikningar voru áritaðir.

Þannig fannst lánasamningur á milli Milestone og Milestone Import Export, dagsettur 30. desember 2007. Hann var undirritaður af hálfu Milestone en óundirritaður af hálfu Milestone Import Export. Sá samningur hafði ekki fundist við húsleitir sumarið 2009 eða í rafrænum gögnum Milestone. Samningurinn hafði eingöngu fundist þegar hald var lagt á vinnugögn endurskoðenda í ágúst 2011.

Saksóknari sagði því ljóst að samningnum hefði verið bætt inn í endurskoðendagögnin síðla árs 2009. „Þar sem skjalið fannst ekki hefur það líklega verið útbúið eftir gjaldþrot Milestone. Því er ljóst að það lá ekki til grundvallar þegar ársreikningur Milestone árið 2007 var gerður.“

Treystu munnlegum skýringum

Nefndi saksóknari að endurskoðendurnir hefðu látið sér nægja ófullnægjandi endurskoðunargögn, þau hefðu látið sér staðla í léttu rúmi liggja og í raun þverbrotið viðmið staðla. „Þau kölluðu eftir gögnum, fengu engin gögn en létu það gott heita og létu líta út fyrir að þau hefðu fengið gögnin.“

Við endurskoðun ársreikninga Milestone 2006 og 2007 hefðu endurskoðendurnir látið hjá líða að skoða raunverulega tilvist hárra krafna sem voru ótengdar reglubundnum rekstri Milestone. Þau hefðu ekki skoðað bókhaldsgögn á bak við kröfurnar, ekki metið tryggingar eða líkur á endurgreiðslu. Greiðsluhæfi skuldarans var ekki kannað og þrátt fyrir að öll viðvörunarljós hefðu kviknað treystu þau munnlegum skýringum stjórnenda Milestone.

Saksóknari sagði háttsemi Hrafnhildar, Margrétar og Sigurþórs fordæmalausa, vítaverða og hafa varðað mikla hagsmuni. Það væri til refsiþyngingar. Brotin væru stórfelld og ljóst að yrðu þau fundin sek leiddi það til að þau yrðu dæmd í óskilorðsbundið fangelsi og það yrði umfram þau viðmið sem getið væri um í lögum um endurskoðendur, hvað varðaði hæfi þeirra. Til að öðlast löggildingu þurfa endurskoðendur að vera með óflekkað mannorð og í því felst að hafa ekki verið dæmdur í fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Að öðru leyti lagði saksóknari refsingu þeirra í mat dómsins.

Þá er þess krafist að þau verði öll svipt réttindum sínum sem löggiltir endurskoðendur.

Karl Wernersson og Ólafur Eiríksson, verjandi hans.
Karl Wernersson og Ólafur Eiríksson, verjandi hans. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert