Framkvæmdaleyfi virkjunar fellt úr gildi

Breiðadalur.
Breiðadalur. Ljósmynd/Bæjarins besta

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi framkvæmdaleyfi sem Ísafjarðarbær veitti Orkuvinnslunni ehf. fyrir lagningu á 1.200 metra þrýstivatnslögn í Breiðadal í Önundarfirði. Þetta kemur fram í frétt á vef Bæjarins besta.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar veitti framkvæmdaleyfið 7. júní 2012 og kæra frá fjórum landeigendum Neðri-Breiðadals barst úrskurðarnefndinni 18. júní það ár. Úrskurðarnefndin telur að Ísafjarðarbæ hafi ekki verið heimilt að veita framkvæmdaleyfið þar sem í aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 er ekki heimilt að veita leyfi til stærri 200 kW virkjana en virkjunin í Breiðadal er eftir stækkun allt að 500 kW. 

Í kærunni skírskota kærendur einnig til eignarhalds á Neðri-Breiðadal en árið 1932 skiptu þáverandi eigendur Neðra-Breiðadals heimatúni og ræktarlandi í fernt og eftir það var talað um Neðri-Breiðadal 1-4 og eignarhluti kærenda nefnist Neðri-Breiðadalur 2. Úthagi og hlunnindi, svo sem vatnsréttindi voru áfram í óskiptri sameign. Kærendur telja að ekki hafi verið heimilt, án samþykkis allra landeigenda, að stofna til jarðar úr óskiptu landi Neðri-Breiðadals sem Orkuvinnslan keypti til að tryggja sér vatnsréttindi í Breiðadal. 

Sjá frétt Bæjarins besta í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert