Heims- og heimilisfriður nátengdir

Ljósmynd/ Árni Torfason

Dagana 25. nóvember til 10. desember stendur yfir alþjóðlegt átak gegn kynbundnu ofbeldi. Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis

Í ár er þema átaksins á heimsvísu kynbundið ofbeldi í stríði og vopnuðum átökum. Einnig er sjónum beint að heimilisofbeldi því að aðeins þegar er friður á heimilum næst friður í heiminum. Hér heima verður því áhersla lögð á yfirskriftina „Heimilisfriður – heimsfriður“ og sjónum beint að  heimilisofbeldi og ábyrgð gerandans sem og öðrum birtingarmyndum kynbundis ofbeldis í íslenskum veruleika.

Í tilkynningu frá Mannréttindaskrifstofu Íslands segir að kynbundið ofbeldi sé ein af verstu birtingarmyndum kynjamisréttis hér á landi sem og annars staðar. „Hundruð kvenna leita árlega til Neyðarmóttöku, Stígamóta og Kvennaathvarfsins vegna nauðgana og annars ofbeldis af hendi karla. Kynbundið ofbeldi lýsir sér í nauðgunum, sifjaspellum, klámi, vændi, mansali, kynferðisáreitni og annars konar líkamlegu og andlegu ofbeldi gegn konum og stúlkum inni á heimilum þeirra sem utan,“ segir í tilkynningunni

„Upplýsingar frá Kvennaathvarfinu og Stígamótum sýna ótvírætt að ofbeldi gegn konum þrífst á Íslandi sem annars staðar, og það þrífst hvergi eins vel og í skjóli heimila, og í skjóli upplýsingaskorts, þöggunar og aðgerðaleysis. Skömmin sem réttilega tilheyrir gerendum hvílir af þessum og öðrum sökum sem mara á þolendum. „

Í tilkynningunni segir að þó svo að kreppa ríki í landinu sé síður en svo ástæða til að ætla að minna fari fyrir þessari tegund af ranglæti. Reynsla frá nágrannalöndum Íslands sýni að kynbundið ofbeldi aukist á tímum kreppu á meðan að almennum líkamsárásum fækkar. Þó svo að ofbeldið verði minna sjáanlegt þyðir það ekki að það hverfi heldur færist það inn á heimilin.

„Við getum ekki litið framhjá þeim staðreyndum um kynferðisofbeldi sem blasa við okkur. Með árlegu 16 daga átaki viljum við hvetja til opinnar og hispurslausrar umræðu, sem leið til vitundarvakningar meðal almennings og frekari aðgerða í kjölfarið,“ segir í tilkynningunni.

Dagskrá átaksins undanfarin ár hefur verið nokkuð fjölbreytt og samanstaðið af Ljósagöngu, tónleikum, bíósýningum, bókaupplestrum og málstofum. Dagskráin og viðburðir hafa verið auglýstir á heimasíðu átaksins og á facebook sem og á meðal þátttakenda.

Að átakinu í ár standa Mannréttindaskrifstofa Íslands, UNWomen, Amnesty International, Stígamót, Félag ungra Jafnréttissinna, Samband íslenskra framhaldsskólanema, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Hitt húsið, Jafnréttisstofa, Kvenréttindafélag Íslands, Barningur, ASÍ, BHM, BSRB, Akureyrarbær, Aflið, Háskólinn á Akureyri, VMA, Sambíóin, Zontaklúbbur Akureyrar, Zontaklúbburinn Þórunn hyrna, Amtbókasafnið á Akureyri, Alþjóðastofa, Eymundsson, Soroptimistaklúbbur Akureyrar, Akureyrarkirkja, Mjólkursamsalan og Kaffi Ilmur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert