Forgangsröðunin skiptir máli

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Ómar

„Eins og ég hef bent á þá er svigrúm til þess að bæta heilbrigðisþjónustuna og menntakerfið og þar skiptir mestu máli hvernig við forgangsröðum og þetta er forgangsröðun sem við í VG höfum talað fyrir,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, aðspurð um yfirlýsingar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í ræðu sinni á haustþingi miðstjórnar Framsóknarflokksins í dag.

Þar kom til að mynda fram að fjárframlög til Landspítalans á næsta ári séu þau mestu síðan 2008 og að auknu fjármagni verði varið í menntakerfið. 

„En ef við skoðum fjármál Landspítalans þá sjáum við að það er búið að skera niður til hans á hverju ári frá aldamótum. Það er gríðarleg einföldun sem núverandi ríkisstjórn hefur kosið að nota í sínum málflutningi að fjárhagsvandi Landspítalans hafi byrjað í valdatíð síðustu ríkisstjórnar,“ segir Katrín. „Staðreyndin er sú að við tókum við ríkissjóði eftir að Ísland var sett á hausinn og þá var það mjög bagalegt hversu illa hafi verið staðið að Landspítalanum í mörg ár þar á undan.“

Hún segir það dapurlegt þegar að fólk reyni að búa til ágreining um Landspítalann. „Þetta er ekki nýtt vandamál, því miður. En Landspítalinn var strax settur í forgang árið 2012 þegar ríkisfjármálin byrjuðu að batna. Mér finnst bara dapurlegt að fólk sé að reyna að gera ágreining um svona lykilstofnanir sem við ættum öll að reyna að ná saman um. Það hefur verið eytt mestum tíma í að benda á aðra þegar við ættum að geta verið sammála um að þetta sé stofnun sem við ættum að setja í algjöran forgang.“

Sigmundur sagði einnig í dag að breytingar á virðis­auka­skatt­s­kerf­inu myndu verða til þess að flest­ar vör­ur lækkuðu í verði og nauðsyn­leg lyf þá sér­stak­lega. Katrín segist nú bíða eftir tillögum í því máli.

„En það eru auðvitað mjög íþyngjandi fyrir fjölskyldurnar ef það á að standa við hækkun á matarskatti og íþyngjandi fyrir samfélagið í heild sinni ef virðisaukaskattur á bækur og tónlist mun hækka. Þetta eru greinar sem á að huga sérstaklega í skattkerfinu og aðrar þjóðir hafa gert það í mörg ár,“ segir Katrín. 

Mestu fjárframlög til LSH frá 2008

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert