Gestum fjölgar þegar bæturnar eru búnar

Um 40 manns sækja dag hvern til Rannvá Olsen og …
Um 40 manns sækja dag hvern til Rannvá Olsen og hennar fólks í Dagsetri. Gestum hefur farið fjölgandi. mbl.is/Sigurður Bogi

Fólki sem sækir Dagsetur Hjálpræðishersins við Eyjaslóð í Reykjavík hefur fjölgað nokkuð að undanförnu. Starfsemin þar er ætluð fólki í vímuefnavanda og þeim sem ekki eiga í nein hús að vernda. „Þegar ég tók við starfseminni hér árið 2009 komu hingað að jafnaði 18 manns á dag en nú 28. Suma dagana koma talsvert fleiri. Á þessu er engin algild skýring og fjölgunin tengist efnahagshruninu sáralítið, ef þá nokkuð,“ segir Rannvá Olsen, kapteinn hjá Hernum á Grandanum.

100 manns er jafnaðartala

Breytilegt er frá einum tíma til annars hve götufólk í Reykjavík er margt. Enginn veit töluna nákvæmlega, en stundum hefur verið skotið á að rúmlega 200 manns séu einskonar jafnaðartala í þessu sambandi. Annars er þetta eins og flóð og fjara: fólk kemur og fer.

„Í júlí í sumar þegar veðrið var sem best hefði maður ætlað að fáir yrðu á götunni, en það var alveg öfugt. Og nú þegar farið er að kólna gerist þetta sama. En annars hefur hópurinn sem hingað kemur endurnýjast alveg frá því ég kom hingað fyrst, fastagestirnir sem þá voru hér eru farnir. Sumir látnir en aðrir hafa komist á beinu brautina,“ segir Rannvá sem er frá Færeyjum en hefur búið hér á landi síðastliðin 20 ár.

Um Dagsetursgesti og bakgrunn þeirra segir Rannvá að alltaf sé til fólk sem ekki hafi náð fótfestu í lífinu. Sumir eigi brotna fortíð og hafi því leiðst út í vímuefnaneyslu. Einnig komi í Dagsetrið fólk sem er fyrst og síðast í leit að félagsskap.

Snúa ekki aftur til stríðslanda

„Útlendingar sem komu til Íslands, þegar mest eftirspurn var eftir vinnuafli, eru meðal þeirra sem hingað koma í leit að félagsskap. Þetta eru gjarnan menn sem eru án vinnu, eiga fáa bakhjarla og vantar þar af leiðandi stuðningsnetið. Sumir hafa hreinlega orðið innlyksa hér á landi. Hingað koma menn til dæmis frá Serbíu og Króatíu, sem upplifðu stríðsátökin þar og geta af þeim sökum ekki hugsað sér að snúa aftur heim,“ segir Rannvá og heldur áfram:

„Annars er svolítið áberandi að fyrst eftir hver mánaðamót, þegar bætur almannatryggingar og borgarinnar eru greiddar út, þá koma hingað einna fæstir. Þá hefur fólk úr peningum að spila, sem svo yfirleitt eru búnir þegar kemur fram á 3. eða 4. dag mánaðar. Þá liggur leiðin oft hingað aftur.“

Dagsetrið er opnað klukkan tíu á morgnana og fólkið á götunni er að tínast þangað fram undir hádegi. Þá er matur á borðum og önnur hressing eftir atvikum. Þarna getur fólk líka komist í sturtu, fengið fötin sín þvegin og þreyttir geta fengið sér kríublund á mjúkri dýnu. Einnig er hægt að horfa á sjónvarpið, líta í bækur, grípa í spil og svo framvegis. Opið er á Eyjaslóð fram til klukkan 17. Þá tínast gestirnir á brott en afdrep margra þeirra er í Gistiskýlinu, en starfsemi þess var nýlega flutt úr Þingholtsstræti í Lindargötu. Flestir Dagsetursgestirnir eru fólk sem hefur ánetjast vímuefnum á einhvern hátt. Sumir áfengi, en aðrir rítalíni, amfetamíni eða öðru eftir atvikum.

Örari af stórum skammti

„Í vor gerðist það svo að sumir sem hingað koma nánast gjörbreyttust. Urðu örari og það má sennilega rekja til þess að nokkuð stór skammtur af örvandi efni, ég veit ekki hverju, hafi komist í sölu. Breytingin á fólkinu var mjög skýr. Það leiddi meðal annars til þess að ég réð hingað starfsmann sem er einskonar öryggisvörður. Nú þurfa gestir til dæmis að hringja dyrabjöllu niðri þegar þeir koma inn og enginn má hafa með sér áfengi eða önnur efni hingað inn,“ segir Rannvá sem er einn fimm starfsmanna í Dagsetrinu. Milli Hjálpræðishersins og Reykjavíkurborgar gildir það samkomulag að sveitarfélagið greiðir fyrir 2,5 stöðugildi, auk þess sem félagsráðgjafi frá velferðarsviði borgarinnar mætir á staðinn alla virka daga.

„Það munar um stuðning borgarinnar. Þó er starfið hér að mestu leyti fjármagnað fyrir sjálfsaflafé Hjálpræðishersins og inntakið í öllu okkar starfi er að styðja fólk og hjálpa. Og okkur er sýnd mikil velvild, en ég á afar erfitt með að biðja um aðstoð. Nokkur fyrirtæki leggja okkur til mat og sumir eru hreinlega með veislu í farangrinum því oft hendir að fólk kemur hingað með restar til dæmis úr erfidrykkjum og brúðkaupum, allskonar kræsingar sem skjólstæðingar okkar kunna vel að meta.“

Stuðningur í Dagsetri er mér mikilvægur

„Starfsemin og stuðningurinn hér er mér mjög mikilvægur,“ segir Andrej Ryscarel Lylko frá Póllandi. Hann er 53 ára og kom hingað til lands fyrir átta árum, það er á velsældartímunum miklu. Vann þá á vélaverkstæði, en hefur nú verið atvinnulaus um alllangt skeið. Saga hans er samtóna margra annarra, en fjölmargir sem eiga rætur sínar erlendis eru í hópi götufólks í Reykavík

„Ég hef svo sem ekki að miklu að hverfa. Er á Gistiskýlinu yfir nóttina og svo kem ég hingað. Það er lítið annað að gera. Já, ég hef alveg látið mér detta í hug að fara aftur heim til Póllands en það verður ekki í bráð að minnsta kosti,“ segir Lylko.

Að komast í hita undir húsþaki

Gangurinn í lífi götufólks er gjarnan sá að eftir það yfirgefur Gistiskýlið liggur leið þess niður í Kvos og heldur sig þar og á Grandanum yfir miðjan daginn. Sést þá oft til dæmis á Lækjartorgi, í Tryggvagötu og víðar. Eru staddir í sinni eigin veröld sem lýtur ekki nema að takmörkuðu leyti þeim lögum sem sett eru á Alþingi við Austurvöll, sem er meðal þeirra staða þar sem staða sem útigangsmenn halda sig gjarnan á.

Heimildamenn Morgunblaðsins segja götufólkið furðu lagið við að finna yfirgefið húsnæði - þar sem það hreiðrar um sig um lengri eða skemmri tíma þá auðvitað í leyfisleysi. Yfir vetrartímann sé inntak lífsbaráttunnar að komast í hita undir húsþaki.

Beðið eftir nýrri framtíð undir vegg Tollstöðvarinnar.
Beðið eftir nýrri framtíð undir vegg Tollstöðvarinnar. mbl.is/Sigurður Bogi
„Ég hef svo sem ekki að miklu að hverfa,“ segir …
„Ég hef svo sem ekki að miklu að hverfa,“ segir Lylko. mbl.is/Sigurður Bogi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert