Bréfamaraþonið að hefjast

Sunnudaginn 30. nóvember taka Íslandsdeild Amnesty International og Reykjavíkurborg höndum saman í baráttunni fyrir betri heimi með því að hleypa árlegu bréfamaraþoni samtakanna af stað.

Bréfamaraþon Amnesty mun fara fram í Ráðhúsi Reykjavíkur og hefst klukkan 18.00 með því að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setur það formlega. Gestum gefst kostur á að skrifa undir aðgerðakort er varða tólf einstaklinga og hópa sem sætt hafa grófum mannréttindabrotum víða um heim og þrýsta á stjórnvöld í viðkomandi landi að gera úrbætur, segir í tilkynningu.

Bréfamaraþonið er einn stærsti mannréttindaviðburður í heiminum. Fólk um víða veröld kemur saman á aðventunni og sendir bréf til yfirvalda sem brjóta gróflega mannréttindi. Íslendingar hafa ekki látið sitt eftir liggja í bréfamaraþoninu en í fyrra sendu þeir rúmlega 50.000 bréf og kort. Íslandsdeild Amnesty International vonar að þátttakan verði ekki síðri nú og að fjölmenni verði í Ráðhúsinu 30. nóvember.

Boðið verður upp á aðventustemningu í Tjarnarsal Ráðhússins, kruðerí og kakómjólk fyrir yngstu kynslóðina, en auk þess að skrifa undir málin tólf geta gestir tendrað kerti og lýst upp myrkrið, sem tákn um baráttu fyrir betri heimi.

Tónlist flytja Kristjana Stefánsdóttir og Svavar Knútur og kvennakórinn Vox feminae.

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í desember árið 2005 að Reykjavíkurborg tæki þátt í baráttunni gegn dauðarefsingum í heiminum með því að gerast aðili að Lífsborg gegn dauðarefsingunni (Cities for Life - Cities against the Death Penalty).  Ár hvert, hinn 30 nóvember, taka hundruð borga sem aðilar eru að Lífsborg gegn dauðarefsingunni, þátt í mannréttindabaráttunni með því að varpa ljósi á valinkunnar byggingar í borgunum eða tendra ljós með öðrum hætti.

Amnesty International hefur barist gegn dauðarefsingunni í 50 ár og mun halda þeirri baráttu á lofti allt þar til að þessi ómannlega og grimmilega refsing heyrir sögunni til. Eitt þeirra mála sem tekin verða fyrir á bréfamaraþoninu í ár er mál ungs manns frá Nígeríu sem dæmdur var til dauða með hengingu fyrir símstuld.

Bréfaskrifin bera árangur því á hverju ári eiga sér stað raunverulegar breytingar á lífi þolenda mannréttindabrota. Fólk sem er ranglega fangelsað er leyst úr haldi. Pyndarar eru látnir svara til saka og fólk í fangelsum fær mannúðlegri meðferð. Ekki láta þitt eftir liggja á aðventunni í baráttunni fyrir betri heimi.

Meira um bréfamaraþonið á heimasíðu Íslandsdeildar Amnesty International

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert