Fær ekki grísinn vegna tómlætis

Bónus
Bónus mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Haga af kröfum Edithar Randy Ásgeirsdóttur um að fyrirtækinu yrði bönnuð öll notkun á bónusgrísnum, einkennismerki verslana Bónus, en Edith teiknaði grísinn. Þótti Edith hafa glatað rétti sínum vegna tómlætis.

Edith gaf aðilaskýrslu við aðalmeðferð og lýsti atvikum varðandi tilurð og undirskrift samkomulags sem hún byggir á að Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson hafi átt frumkvæði að því að gera við sig fyrir hönd Bónuss þann 23. desember 1991, en þá hét fyrirtækið Bónus-Íslaldí ehf.

Einnig byggði hún á að núverandi stjórnendur Haga hafi í síðasta lagi fengið eða mátt fá vitneskju um samninginn þann 20. janúar 2000, þegar Bónus var sent bréf frá Einkaleyfastofu þar sem fram kom að stefnandi mótmælti skráningu vörumerkisins, enda komi fram í ákvörðun Einkaleyfastofu í andmælamáli nr. 18/2001 að andmæli Edithar hafi byggst á því að sú ákvörðun Bónuss að sækja um skráningu merkisins „gangi gegn samkomulagi milli fyrrum framkvæmdastjóra Bónus og andmælanda“.

Dómurinn segir hins vegar í niðurstöðu sinni að ekki verði litið öðruvísi á en að Edith hafi mátt vera ljóst að nauðsynlegt hefði verið að gera ráðstafanir til þess að tryggja rétt sinn samkvæmt samkomulaginu, enda vissi hún frá fyrstu hendi um skráningar vörumerkja Bónuss þar sem hún bar um að hafa annast þrjár slíkar vörumerkjaskráningar á árinu 1989.

Þá liggi fyrir að Edith vann mjög náið með forráðamönnum Bónuss í nærfellt 18 ár og á þeim tíma urðu miklar breytingar á eignarhaldi stefnda og Bónuss. Mörg aðilaskipti urðu að Bónus allt frá árinu 1992 og eðlilegt hefði verið að Edith tryggði rétt sinn þannig að vörumerkjaréttindi félagsins fylgdu ekki með án fyrirvara um rétt stefnanda.

Ekki hafi verið sýnt fram á að Edith hafi gert reka að því að sýna fram á rétt sinn samkvæmt umræddu samkomulagi fyrr en þann í janúar 2010, en þá hafi níu ár verið liðin frá því niðurstaða Einkaleyfastofu lá fyrir í ofangreindu andmælamáli. „Þykir stefnandi því hafa glatað rétti sínum samkvæmt framangreindum samningi vegna tómlætis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert