Kaup á gæðavöru hefur góð áhrif

Notaðu fötin – Notaðu höfuðið – Verndaðu umhverfið!
Notaðu fötin – Notaðu höfuðið – Verndaðu umhverfið! Ljósmynd/NN - norden.org

Fjórtán hundruð lítra af vatni þarf til þess að framleiða einn bol auk þess sem fataiðnaðurinn notast við mikinn fjölda eiturefna í framleiðslunni. Norræna ráðherranefndin vekur athygli á þessari staðreynd í nýju kynningarmyndbandi og leiðbeiningum um hvernig norrænir neytendur geta takmarkað skaðleg áhrif fataframleiðslu á umhverfið.

Leiðbeiningarnar „Notaðu fötin – Notaðu höfuðið – Verndaðu umhverfið!“ veita góð ráð um það hvernig neytendur geta stuðlað að verndun umhverfisins með breyttum fatainnkaupum.  Lögð er áhersla á að aukin endurvinnsla og endurnotkun á fatnaði minnkar þörfina á framleiðslunni sem er skaðleg umhverfinu.

„Notaðu fötin – Notaðu höfuðið – Verndaðu umhverfið!“ bendir á að neytendur geta auðveldlega haft góð áhrif, t.d. með því að sækjast eftir gæðavöru sem nýtist lengi, kaupa og selja notað, skiptast á fötum á fatamörkuðum, fá lánuð föt á svokölluðum fatasöfnum og gefa fatnað til góðgerðarsamtaka. Neytendur eru einnig hvattir til þess að kaupa fatnað sem merktur er með umhverfismerkjum eins og norræna Svaninum eða evrópska blómamerkinu, og hafa þannig jákvæð áhrif á framleiðendur. 

Leiðbeiningarnar byggja á niðurstöðum nýrrar skýrslu um endurnýtingu og endurvinnslu á fatnaði og textílefnum sem Norræna ráðherranefndin gefur út 24. nóvember.

Auk vatnsins notast fataiðnaðurinn við mikinn fjölda eiturefna í framleiðslunni. Sænsk rannsókn bar nýlega kennsl á 165 hættuleg efni sem notuð eru í fata- og textílframleiðslu. Þar að auki samsvarar koltvísýringslosunin sem hlýst af árlegum fatakaupum hins norræna meðalneytanda til rétt um 2000 kílómetra aksturs í fjölskyldubílnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert