Ný útgjöld kynnt á morgun

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fundi fjárlaganefndar Alþingis sem átti að fara fram í dag hefur verið frestað til morguns. Að sögn Vigdísar Hauksdóttur, formanns nefndarinnar, var það gert þar sem nokkuð stórar upphæðir eigi að bætast við útgjaldahlið fjárlagafrumvarpsins og nefndin hafi viljað vanda til verka.

„Við ætluðum að kynna útgjaldahliðina í dag en svo viljum við vanda okkur við þetta því það er um nokkuð stórar upphæðir að ræða. Við ákváðum að í stað þess að vera ekki alveg tilbúin með tillöguna þá viljum við hafa þetta endanlegt á morgun og hinkra með fundinn. Það skapaðist aukasvigrúm og það verður að ráðstafa því með ábyrgum hætti. Við viljum gefa okkur þann tíma sem við þurfum til að leggja það fram í tillöguformi,“ segir Vigdís sem gerir ráð fyrir að tillögurnar verði kláraðar í kvöld.

Sagt var frá því á forsíðu Morgunblaðsins í dag að ríkisstjórnin hafi gert tillögu um að auka framlög til Landspítalans um einn milljarð króna frá því sem áætlað hafði verið í fjárlagafrumvarpinu. Vigdís segist ekki geta tjáð sig um það á meðan enn sé farið yfir tillögurnar. Svigrúmið sem hefur gert það kleift að auka útgjöld á næsta ári sé tilkomið vegna aukinna tekna ríkisins þar sem vel ári í samfélaginu og viðsnúningi hafi verið náð.

Milljarður í Landspítalann

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert