Bæta lífskjör barna með nýsköpun

Nýsköpun stuðlar að bættum lífskjörum barna samkvæmt skýrslunni.
Nýsköpun stuðlar að bættum lífskjörum barna samkvæmt skýrslunni. Ljósmynd/UNICEF

Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða svo koma megi í veg fyrir að milljónir barna verði af þeim ávinningi sem þau annars ættu kost á með nýsköpun og tækniþróun. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sendi frá sér í tilefni 25 ára afmælis Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þverfaglegt samstarf getur gefið af sér ný alþjóðleg tengslanet og samstarfsverkefni geta virkað sem lyftistöng svo ná megi til allra barna, segir meðal annars í skýrslunni.

Í skýrslunni, sem er hluti af flokknum Staða barna í heiminum (e. State of the Worlds Children) er skorað á ríkisstjórnir, þróunarstofnanir, fyrirtæki, aðgerðarsinna og samfélög að hrinda í framkvæmd lausnum á aðkallandi vandamálum sem varða börn. Jafnframt er hvatt til þess að leitað sé nýrra leiða og áhersla lögð nýsköpun við lausn þeirra vandamála.

Fyrir ungt fólk, frá ungu fólki

Í fréttatilkynningu frá UNICEF er haft eftir Anthony Lake, framkvæmdastjóra UNICEF, að nýsköpun hafi alltaf verið drifkrafturinn á bak við framfarir. „Heimurinn verður sífellt smærri og í heimi þar sem meiri tengsl eru á milli fólks, geta lausnir sem búnar eru til fyrir lítil samfélög og svæði haft alþjóðleg áhrif – og verið ávinningur fyrir börn sem enn búa við misrétti.“

Þá er einnig haft eftir honum að mannkynið verði að vera meira skapandi svo nýsköpun geti  borið árangur fyrir öll börn. „Bestu lausnirnar fyrir þau vandamál sem eru hvað alvarlegust munu ekki endilega koma frá toppnum og niður eða frá grasrótinni og upp, né frá einum hópi til annars. Lausnirnar munu koma frá lausnamiðuðum samstarfshópum og þverfaglegum teymum í nýsköpun sem þora að hugsa og fara út fyrir kassann til þess að geta leyst þau vandamál sem erfiðast er að leysa. Og þær munu koma frá ungu fólki, unglingum og börnum.“

Þörf á lausnum fyrir þau verst settu 

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna skrifaði og innleiddi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1989. Síðan hafa orðið miklar framfarir í réttindum barna, m.a. með stórlækkaðri tíðni ungbarnadauða og auknum fjölda barna sem hafa aðgang að hreinu vatni og menntun.  

Í tilkynningunni segir að þrátt fyrir þetta séu réttindi milljóna barna brotin á hverjum degi. Fátækustu 20% barna eru tvisvar sinnum líklegri til að deyja fyrir fimm ára aldur en ríkustu 20% barna. Um fjórðungur barna í vanþróuðum ríkjum eru fórnarlömb barnaþrælkunar og milljónir barna sæta mismunun og búa við ójöfnuð, sæta líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi, misnotkun og vanrækslu.

UNICEF hefur áður bent á að nýsköpun á borð við næringarsölt eða vítamínbættan mat hefur verið leiðandi í róttækum breytingum á lífi milljóna barna síðustu 25 árin og að framsæknari vöruþróun og samstarf eru nauðsynleg til að ná að uppfylla þarfir og réttindi barna sem erfiðast er að ná til.

Þá hefur UNICEF lagt áherslu á nýsköpun í samstarfi milli allra 190 aðildarlanda sinna, sett upp miðstöðvar víðsvegar um heiminn, meðal annars í Afganistan, Chile, Kósovó, Úganda og Sambíu til þess að hvetja til skapandi hugsunar, fjölbreyttrar starfsemi og þverfaglegs samstarfs með hinum ýmsu aðilum og þannig hlúa að hæfileikum ungmenna um heim allan.

Réttindi milljóna barna brotin á hverjum degi.
Réttindi milljóna barna brotin á hverjum degi. Ljósmynd/UNICEF
Miklar framfarir í réttindum barna, m.a. með stórlækkaðri tíðni ungbarnadauða …
Miklar framfarir í réttindum barna, m.a. með stórlækkaðri tíðni ungbarnadauða og auknum fjölda barna sem hafa aðgang að hreinu vatni og menntun. Ljósmynd/UNICEF
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert