Jólabasar í yfir 100 ár

„Þetta er einn elsti basar lands og hefur verið haldinn í rúm 100 ár af KFUK-konum,  og nú af KFUM og KFUK eftir að félögin voru sameinuð,“ segir Hildur Þóra Hallbjörnsdóttir, formaður basarnefndar KFUM og KFUK sem stóð í dag fyrir hinum árlega jólabasar félagsins.

„Það eru konur sem hittast allan veturinn til að undirbúa hannyrðavörur, prjónadót og jólaskraut til þess að selja á basarnum. Annar hópur kvenna hefur hist reglulega allt árið og gert svipað. Síðan eru margar konur sem baka fyrir okkur, sumar hverjar óaðspurðar,“ segir Hildur.

Basarinn er haldinn í höfuðstöðvum KFUM og KFUK á Holtaveginum, og er umferðin að sögn Hildar mest fyrstu 45 mínúturnar, og klárast kökurnar oft á þeim tíma. Þá fer fólk að skoða sig um, og kíkja á hannyrðavörurnar. Hún hefur sjálf starfað við basarinn í 20 ár. 

„Aðsóknin fer vaxandi, í fyrra seldum við fyrir rúmlega milljón á klukkustund, en maður veit aldrei hvernig salan er fyrr en búið er að telja upp úr kössunum.“

Aðspurð hvort vöruúrvalið hafi verið svipað frá upphafi basarsins fyrir 100 árum, segist Hildur halda það. „Við vorum að ræða þetta við eldri konurnar. Úrvalið hefur aðallega verið hannyrðavörur, útsaumaðir dúkar og jólaskraut, en eldri konurnar héldu þó að fyrstu árin hafi ekki verið boðið upp á kökur á basarnum,“ segir Hildur. 

Þá segir Hildur að karlarnir séu orðnir duglegir við að aðstoða. „Við basarinn vinna um 30 sjálfboðaliðar auk þess sem við fáum gjafir frá konum og körlum. Við erum mjög ánægð með að hafa tekist að fá þá með í þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert