Degi leið vel í gallanum

Degi leið vel í gallanum enda var hann í Fylkislitunum.
Degi leið vel í gallanum enda var hann í Fylkislitunum. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Mér líður bara vel í gallanum og með sögina. Ég hef gert þetta einu sinni áður og undir góðri leiðsögn þá mæli ég með þessu,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is er hann var nýbúinn að fella jólatré sem mun standa við Austurvöll yfir jólahátíðina.

Tréð sem Dagur felldi í dag stóð á landi Skógræktarfélags Reykjavíkur við Rauðavatn.

Eins og mbl.is sagði frá í gærkvöldi skemmdist jólatré á Austurvelli, sem sett var upp fyrir helgi, í óveðrinu í gær. Sagt var frá því í morgun að eftir skoðun var það mat starfs­manna Reykja­vík­ur­borg­ar að ekki væri hægt að gera við tréð með góðu móti, þar sem það mun standa veik­ara eft­ir og þola illa sterk­an vind.

Í morgun kallaði Dagur eftir hugmyndum hvernig best væri að „bjarga jólunum“ og útvega nýtt tré. Við Rauðavatn í dag sagði hann að það hefði verið starfsfólk Skógræktarfélags Reykjavíkur sem bjargaði jólunum.

Hann segir það hafa komið borgaryfirvöldum á óvart að tréð hafi skemmst. „Þessi tré hafa staðið af sér veður og vinda áratugum saman þannig það kom mér á óvart að það skyldi brotna. Ég er alveg ótrúlega ánægður hvað starfsfólkið hjá borginni og Skógræktarfélagið brugðust fljótt við og fundu lausn á þessu máli.“

Tréð sem skemmdist var sem fyrr gjöf frá Ósló, höfuðborg Nor­egs. Eins og fjallað var um í fjölmiðlum fyrr á þessu ári stóð til að borgarstjórn Óslóar myndi hætta að gefa Reykjavíkurborg tréð að gjöf. Sú ákvörðun var þó dregin til baka. Dagur telur að hefðin muni halda áfram.

„Þegar sú hugmynd kom upp að Ósló myndi hætta að gefa tré urðu svo sterk viðbrögð sem sýndi hvað þetta tré er mikill hluti af jólahaldinu. Hefðin mun örugglega halda áfram, hvort sem við ræðum einhverjar breytingar á fyrirkomulaginu eða ekki. En eitt er víst að við verðum áfram í góðri samvinnu við Ósló og Norðmenn,“ sagði Dagur.

En hvað verður um skemmda Óslóartréð?

„Við erum að hugsa um að fara með  það inn í Ráðhús. Þar verður opnaður jólaskógur á fimmtudaginn fyrir jólabörn á öllum aldri,“ segir Dagur. „Það verður fullnýtt og mun gegna sínu hlutverki þótt það verði svolítið annað en við ætluðum fyrst.“

Borgarstjórinn segir að nýja tréð sé gullfallegt en ljós þess verða tendruð á sunnudaginn. „Ég skora á fólk að koma á Austurvöll á sunnudaginn og sjá það. Það er magnað að við eigum orðið svona stór og glæsileg tré.“

Sendiherra Noregs hér á landi, Cecilie Landsverk, var við Rauðavatn í dag til að sjá nýja tréð. 

„Ég varð vör við veðrið í gær og það var leiðinlegt að tréð brotnaði. En auðvitað er hugsunin enn sú sama og hefðin mun haldast. Ég er ánægð yfir því að vera hér í dag til þess að vera fulltrúi góðs samstarfs,“ sagði sendiherrann í samtali við mbl.is.

„Þetta er fallegt tré og við vitum að Ísland á mikið af fallegum trjám. Ég vona þó að hefðin muni halda áfram.“

Sendiherra Noregs á Íslandi, Cecilie Landsverk og Dagur B. Eggertsson, …
Sendiherra Noregs á Íslandi, Cecilie Landsverk og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri við tréð eftir að það var fellt. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert