Mummi aftur kominn á götuna

Götusmiðjan verður opnuð að nýju á föstudaginn en nú standa yfir framkvæmdir í nýrri þjónustumiðstöð sem er til húsa á Stórhöfða 15 þar sem ætlunin er að taka á móti unglingum í fíkniefnavanda og veita þeim fyrstu hjálp á götunni, eins og forstöðumaðurinn Guðmundur Týr Þórarinsson eða Mummi í Götusmiðjunni orðar það.

Hann segir að tíðar auglýsingar eftir unglingum í neyð hafi m.a. valdið því að hann ákvað að taka slaginn að nýju. Ekki síst þar sem hópur þeirra gleymist, þ.e. börnin sem ekki sé lýst eftir.

Fjögur ár eru síðan Götusmiðjunni var lokað en þá var starfsemin falin í því að reka meðferðarstofnun fyrir unglinga, reksturinn gekk þó ekki upp og frægt varð þegar Barnaverndarstofa rifti samningi um reksturinn sem gerður hafði verið við Götusmiðjuna.

Nú segir Mummi að ætlunin sé að veita krökkum í vanda fyrstu hjálp með því að vera til staðar og sækja þau á bíl sem búið er að kaupa fyrir starfsemina. Þá verður starfrækt neyðarnúmer sem krakkar geta hringt í þrátt fyrir að vera búin með inneign í símanum. Þannig segir hann að snúið sé aftur til þeirra grunngilda sem starfsemin snerist um þegar Götusmiðjan hóf störf fyrir hátt í 20 árum. Ekki sé vanþörf á því engin neyðarmóttaka sé fyrir börn í vímuefnavanda á aldrinum 16-20 ára, nokkuð sem sé einsdæmi á Vesturlöndum.

mbl.is kíkti á Stórhöfða fyrir helgi þar sem nemendur í tómstundafræðum sem höfðu hlýtt á fyrirlestur starfsfólks Götusmiðjunnar aðstoðuðu við þrif á húsnæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert