Fjölmiðlar viðstaddir vændiskaupamál?

Ingimar Karl Helgason.
Ingimar Karl Helgason. mbl.is/Þórður

Ingimar Karl Helgason, ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs, fær ekki að fjalla munnlega um kröfu sína þess efnis að þinghöld í vændiskaupamálum sem rekin eru fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur verði opin. Þar sem þegar hefur verið ákveðið að þinghöld verið lokuð er honum meinað að vera viðstaddur fyrirtökur.

Þetta staðfesti Ingimundur Einarsson dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur og dómari í vændiskaupamálunum í samtali við mbl.is. Þess í stað mun Ingimundur kveða upp úrskurð sinn út frá skriflegri kröfu Ingimars Karls þegar málin verða tekin fyrir næst, en ekki liggur fyrir hvenær það verður.

Fari svo að kröfu Ingimars Karls um opin þinghöld verði hafnað getur hann að nýju kært úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar sem mun þá eiga lokaorðið.

Sömu kröfu Höllu hafnað

Málið er sambærilegt öðru frá árinu 2010 en þá krafðist Halla Gunnarsdóttir þess að þinghöld í vændiskaupamálum, sem þá voru rekin fyrir héraðsdómi, yrðu opin. Setti hún kröfu sína fram sem borgari, blaðamaður og talskona Femínistafélags Íslands.

Héraðsdómur hafnaði kröfu Höllu og vísaði til þess að fjallað væri um viðkvæm málefni ákærðu og þeirra kvenna sem þeir voru sakaðir um að hafa keypt vændi af.

Halla kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem vísaði málinu frá á grundvelli þess að hún ætti sem almennur borgari ekki aðild að vændiskaupamálunum og hefði því ekki lögvarða hagsmuni af sakarefni málsins.

Einn þriggja hæstaréttardómara, Hjördís Hákonardóttir, skilaði sératkvæði og sagðist ósammála túlkun meirihluta dómenda um aðild Höllu. „Leggja verður til grundvallar að kærandi sé blaðamaður þó að hún tilgreini ekki sérstakan fréttamiðil og að hún sé talskona Femínistafélags Íslands. Ég tel að sem slík geti hún átt aðild að máli þessu og að kæra hennar eigi að fá efnislega umfjöllun hjá réttinum.“

Tekið undir sératkvæðið

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu 14. nóvember síðastliðinn að vísa bæri frá dómi kröfu Ingimars Karls sem hann setti fram sem blaðamaður og ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs, þ.e. um að þinghöld verði opin í vændiskaupamálunum, og er í úrskurðinum vísað til máls Höllu Gunnarsdóttur og dóms Hæstaréttar um aðildarskort.

Ingimar Karl kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem komst að þeirri niðurstöðu 1. desember síðastliðinn að Ingimar Karl geti átt aðild að kröfunni og gerði héraðsdómi að taka kröfuna til efnislegrar meðferðar. Er það í samræmi við sératkvæði Hjördísar í máli Höllu og vísað til sömu dómafordæma Hæstaréttar.

Héraðsdómur verður því að taka afstöðu til þess hvort fjölmiðlamenn fái aðgang að vændiskaupamálunum á meðan almenningur stendur fyrir utan. Og vafalaust verður það Hæstaréttar að eiga lokaorðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert