Vantar rúma þrjár milljarða

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Rúma þrjár milljarða króna vantar til heilbrigðiskerfisins á næsta ári umfram það sem fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og breytingartillögur meirihluta fjárlaganefndar Alþingis gera ráð fyrir til þess að stofnanir þess geti veitt þá þjónustu sem stjórnendur þeirra telja nauðsynlega.

Þetta sagði Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, í umræðum um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar á Alþingi í dag. Sagðist hann hafa sent fyrirspurn fyrir síðustu helgi á forsvarsmenn allra heilbrigðisstofnana í landinu og spurt hver fjárþörf þeirra væri í þessum efnum. Svör hefðu borist frá öllum stofnunum. Þar kæmi fram að Landspítalann vantaði 800 milljónir króna til þess að sinna nauðsynlegri þjónustu að mati stjórnenda hans og fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri vanhagaði um 55 milljónir króna.

Þá vantaði Heilbrigðisstofnun Norðurlands 332 milljónir króna, Heilbrigðisstofnun Vesturlands 935,3 milljónir, Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu 250 milljónir og Heilbrigðisstofnun Suðurlands 200 milljónir. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja vanhagaði um 102,8 milljónir, Heilbrigðisstofnun Austurlands 345 milljónir og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 41,8 milljónir króna.

„Þetta er það sem vantar upp á til þess að veita nauðsynlega þjónustu, sem forsvarsmenn heilbrigðisstofnana um land allt meta svo, umfram það sem ríkisstjórnin leggur til og meiri hluti fjárlaganefndar, svo að þetta sé bara skjalfest,“ sagði Jón og bætti við að hann vonaðist til að þetta yrði fært til betri vegar á milli annarar og þriðju umræðu um frumvarpið á Alþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert