Hætta við olíuleit á Drekasvæði

Drekasvæðið.
Drekasvæðið. mbl.is/KG

Orkustofnun barst í dag erindi frá rekstraraðila leyfis Nr. 2013/01, Faroe Petroleum, þar sem tilkynnt er að félagið ásamt samstarfsaðilum þeirra, Petoro Iceland og Íslenskt kolvetni, skili sérleyfi sínu aftur til Orkustofnunar sem útgefið var 4. janúar 2013.

Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar. 

Orkustofnun hefur fallist á eftirgjöf sérleyfisins að uppfylltum skilmálum þess.

Faroe Petroleum þakkaði, fyrir sína hönd og samstarfsaðila sinna, Orkustofnun stuðninginn og gott samstarf á leyfistímanum.

Á fundi leyfishafa, með þátttöku Orkustofnunar kom fram að fyrsta áfanga rannsókna samkvæmt sérleyfi leyfishafa til tveggja ára er lokið. Einnig kom fram að niðurstöður frumrannsókna þeirra á leyfissvæðinu bentu til að frekari endurkastsmælingar í næsta áfanga myndu ekki skila tilætluðum árangri vegna basaltlaga, einangruðum við austurjaðar Drekasvæðisins, þar sem þau skyggja á það sem undir liggur.

Enn fremur er það mat leyfishafa að aðrar rannsóknaraðferðir, að undanskildum borunum, myndu ekki auka umtalsvert líkurnar á að finna kolvetnisgildrur á leyfissvæði IS2013/01.

Orkustofnun þakkar viðkomandi leyfishöfum fyrir þeirra framlag til rannsókna á Drekasvæðinu og tekur fram að aðrir sérleyfishafa halda áfram rannsóknum samkvæmt rannsóknaráætlunum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert