Komust við illan leik í Landamannalaugar

Björgunarsveitir á Norður- og Austurlandi hafa haft í nógu að …
Björgunarsveitir á Norður- og Austurlandi hafa haft í nógu að snúast í nótt og dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Snjóbíll Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu er nú í Landmannalaugum, að aðstoða hóp ferðamanna sem komst við illan leik inn í Laugar í gærmorgun og bað í gær um aðstoð við að komast til baka. Um er að ræða hóp á vegum ferðaþjónustuaðila, 15 manns í allt, á mjög öflugum bílum, að sögn Sigurgeirs Guðmundssonar, formanns svæðisstjórnar björgunarsveita.

„Þeir hafa verið komnir í gærmorgun þangað inn eftir og báðu um aðstoð til að komast til baka. Og eins báðu þeir um að við myndum flytja fyrir þá eldsneyti,“ segir Sigurgeir. „Bílarnir höfðu eytt eitthvað meira en þeir reiknuðu með. En færðin er mjög þung og þessir bílar sem eru innfrá eru einhverjir öflugustu bílar á landinu,“ segir hann.

Sjá einnig frétt mbl.is: Sjáðu ofsaveðrið „í beinni“

Snjóbíll Flugbjörgunarsveitarinnar lagði af stað kl. 6 í morgun, þar sem óskað var eftir því að aðstoðin yrði veitt á sunnudagsmorgni, og lenti í Landmannalaugum kl. 11. Það tók hins vegar ferðamannahópinn um 10 til 12 tíma að komast inn eftir. Snjóbíllinn er á fjórum beltum og hefur troðið slóð fyrir ferðamennina en Sigurgeir segir að koma verði í ljós hvernig gengur að koma hópnum til baka.

„Snjórinn treðst mjög illa og þó að dekkin á bílunum séu mjög stór þá er þetta mjög erfið færð; púðursnjór sem treðst ekki.“

Sigurgeir segist rólegur yfir veðrinu, sem verður verst austar. Björgunarsveitir á svæðinu hafa farið í eitt útkall í dag. „Það var eitt útkall í morgun hjá Víkverja; þá voru einhverjir að þvælast út fyrir veg á söndunum, vafalaust bílaleigubílar,“ segir hann.

Sigurgeir segir að talsvert hafi verið um útköll í haust og vetur vegna erlendra ferðamanna í vanda. „Þeir eru að fara austur að Jökulsárlóni sama hvernig viðrar, og ætla bara að taka þessar hefðbundnu sumarleiðir þó að það sé hörkuvetur á Íslandi,“ segir hann.

Landssamband Íslenskra vélsleðamanna hefur sett upp nokkrar vefmyndavélar á svæðinu. 

Á flugi í jökulgili Landmannalauga. Myndin er úr safni.
Á flugi í jökulgili Landmannalauga. Myndin er úr safni. mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert