Sátu föst í Víkurskarði

Víkurskarð. Mynd úr safni.
Víkurskarð. Mynd úr safni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ellefu sátu fastir í bílum sínum í Víkurskarði í nótt og þurftu á aðstoð björgunarsveita að halda til að komast til byggða. Þungfært er innanbæjar á Akureyri og hefur lögreglan þurft að aðstoða fólk við að losa bíla sína í nótt og morgun. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er ófært eða þungfært á öllum leiðum á Vestfjörðum og Norðurlandi og sama má segja um Austurland. 

Björgunarsveitin Súlur og björgunarsveitin Týr sendu bíla í Víkurskarð að sækja fólkið og er það nú komið ofan úr skarðinu. „Það er óhemjusnjór í Víkurskarði og 1-2 metra háir skaflar,“ segir Gunnar Garðarsson, hjá björgunarsveitinni Súlum. Hann segir að beiðni um aðstoð hafi komið um miðnætti og því hafi fólkið þurft að bíða í bílum sínum í skarðinu í marga klukkutíma. Ekkert amaði þó að þeim.

Varðstjóri lögreglunnar á Akureyri segir nóttina því hafa verið annasama. Fjórar björgunarsveitir þurftu að koma fólki sem sat fast í bílum sínum til aðstoðar í nótt, m.a. í Víkurskarði, Fnjóskadal og í Eyjafjarðarsveit.

Töluverð ofankoma er á Akureyri en lítill vindur var kl. hálf sjö í morgun. Vegurinn um Víkurskarð er ófær. 

Á Ísafirði var rólegt hjá lögreglunni í nótt. Éljagangur er nú í bænum en „við höfum séð það verra,“ sagði varðstjórinn og sagði engin útköll hafa borist lögreglunni vegna veðurs.

Flest skip eru nú komin að landi vegna slæmrar veðurspár, samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar.

Um miðnætti fór að kyngja niður snjó í Vestmannaeyjum og varaði lögreglan þar í bæ fólk við því að vera á ferli á vanbúnum bílum. Þungfært var orðið á götum bæjarins eftir miðnættið.

Ekkert ferðaveður verður á landinu í dag, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar. Spáð er stormi víða um land og ofsaveðri á austurhelmingi landsins.

Færðin á landinu kl. 7.40 í morgun:

Hálka og skafrenn­ing­ur er á Hell­is­heiði og Sands­skeiði snjóþekja í Þrengsl­um. Hálku­blett­ir eru á nokkr­um leiðum á Suður­nesj­um. Hálka eða snjóþekja og skafrenn­ing­ur er á flest­um leiðum á Suður­landi. Þæf­ing­ur og snjóþekja er á Suður­stranda­vegi, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Vega­gerðinni.

Ófært er á Holta­vörðuheiði, Bröttu­brekku, Svína­dal og Laxár­dals­heiði. Þæf­ings­færð og skafrenn­ing­ur er á Mýr­um, Vatna­leiði og í Bú­lands­höfða. Ófært er á Fróðár­heiði. Þæf­ings­færð eða snjóþekja er á öðrum leiðum á Vest­ur­landi.

Á Vest­fjörðum og Norður­landi er ófært eða þung­fært á öll­um leiðum sama má segja um Aust­ur­land.

Frá Reyðarf­irði og með suður­strönd­inni er hálka og skafrenn­ing­ur,  óveður er í Ham­ars­firði og við Lómagnúp.

Frá Djúpavogi og með suðurströndinni er hálka eða snjóþekja og skafrenningur, óveður er við Lómagnúp.

Veðurvefur mbl.is.

Snjó kyngdi niður í Vestmannaeyjum í gær og nótt.
Snjó kyngdi niður í Vestmannaeyjum í gær og nótt. Af Facebook-síðu lögreglunnar í Vestmannaeyjum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert