„Með því mesta sem við sjáum“

Vindaspá í gær klukkan 14.
Vindaspá í gær klukkan 14. Kort/Veðurstofa Íslands

„Þetta er með því mesta sem við sjáum,“ segir Þóranna Pálsdóttir, verkefnisstjóri veðurgagnaúrvinnslu hjá Veðurstofu Íslands, um vindhviður sem mældust í Hamarsfirði í gær. Sjálf­virka veður­at­hug­un­ar­stöðin á svæðinu hætti að senda frá sér mælingar laust eft­ir há­degi í gær, en skömmu áður sýndu mælarnir meðal­vind upp á 39 m/​s og allt að 67 m/​s í hviðum.

Þóranna segir þó ekki um vindhraðamet að ræða, en hviður upp á allt að 76 m/s hafa mælst á heiðum. Sérstakt þykir þó að vindur mælist svo mikill nálægt byggð, en síðan stöðin í Hamarsfirði var sett upp fyrir þremur árum hefur hún mælt hviður allt að 71 m/s. 

„Það er mjög hviðugjarnt á þessu svæði, og sambærilegt við háfjöll. Við byrjuðum mælingar þarna 2011 og þetta er með því mesta síðan þá. En það var ein hviða yfir 70 m/s í nóvember í fyrra,“ segir Þóranna. Þá segir hún sterkustu hviðurnar hafa mælst á Hellisheiði, Setri, í Skálafelli og á Gagnheiði.

Veðurathugunarstöðin í Hamarsfirði er í eigu Vegagerðarinnar, og samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru viðgerðaraðilar á leið á vettvang núna til að kanna það hvort stöðin hafi bilað eða hreinlega fokið af.

Vindhraði sambærilegur miðlungsstórum fellibyl

Að sögn Haralds Eiríkssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofunni, var vindur í gær sambærilegur miðlungsstórum fellibyl. „Þarna eru mikil áhrif frá landslaginu svo vindurinn er mjög bylgjóttur og vindhviðurnar miklar. Landslagið hjálpar til við að magna upp vindinn í hviðunum og það gerist oft þar sem hvassvindur stendur af fjöllum. Það er erfitt að bera þetta saman við fellibyl en vindhraðinn er þó sambærilegur miðlungsfellibyl.“

Hann segir vind væntanlega verða mikinn á svæðinu í dag, en býst við því að veður gangi niður í kvöld. „En svo tekur við önnur lægð á morgun, og þá hvessir á suður- og vesturlandi með snjókomu,“ segir hann. „Það er frekar rysjótt veður ennþá.“

Hamarsfjörður.
Hamarsfjörður. Rax / Ragnar Axelsson
Vindaspá í dag klukkan 12.
Vindaspá í dag klukkan 12. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert