Fjórtán ára ók fjórhjóli af gáleysi

Fjórhjól.
Fjórhjól.

Fjórtán ára stúlka sýndi af sér stórkostlegt gáleysi þegar hún ók fjórhjóli utan alfaraleiðar og með þeim afleiðingum að hún kastaðist af hjólinu og slasaðist á fæti. Hún hafi mátt gera sér grein fyrir því að ökuréttindi þurfi til aksturs vélknúinna ökutækja. Fær hún því ekki fullar bætur frá tryggingafélagi sínu.

Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur sem sýknaði Sjóvá-Almennar tryggingar af kröfum stúlkunnar um fullar bætur, en Sjóvá hafði þegar bætt henni tjónið að hálfu leyti.

Í niðurstöðu dómsins segir að gera megi þá kröfu til 14 ára barns að það geri sér grein fyrir að ökuréttindi þurfi til aksturs vélknúinna ökutækja. Telur dómurinn því að stúlkan, sem var 14 ára gömul þegar atvikið átti sér stað, hafi mátt vera ljóst að háttsemi hennar væri hættuleg bæði henni sjálfri og öðrum og það eigi einnig við þótt aksturinn hafi farið fram utan alfaraleiða.

Af því leiði að með hátterni sínu sýndi stúlkan af sér stórkostlegt gáleysi þegar hún ók torfæruhjólinu án ökuréttinda.

Stúlkan hafði aldrei áður ekið fjórhjóli og bar við að hún hefði ekið því rólega, eða á um 30 km hraða. Hins vegar hafi bensíngjöfin fest inni og hjólið þá farið allt of hratt. Hafi hjólið stefnt á girðingarstaur á túninu en þá hafi stúlkan kastast af hjólinu og lent á staurnum með þeim afleiðingum að hún slasaðist á fæti.

Hún fór fram á að Sjóvá greiddi rúmar þrjár milljónir króna í bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert