Gáfu Mæðrastyrksnefnd milljón

Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri VÍS og Ragnhildur G. Guðmundsdóttir formaður …
Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri VÍS og Ragnhildur G. Guðmundsdóttir formaður Mæðrastyrksnefndar fyrir miðju ásamt sjálfboðaliðum hjá nefndinni og fulltrúum frá VÍS. Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

VÍS færði Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur 1.000.000 kr. að gjöf á mánudaginn.

Ragnhildur G. Guðmundsdóttir formaður nefndarinnar tók við gjöfinni frá Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur forstjóra VÍS. Afendingin fór fram í húsnæði Mæðrastyrksnefndar að Korputorgi þar sem jólaúthlutun samtakanna fer fram. 

„Þetta er alveg dásamleg heimsókn og óvænt. Svona höfðinglegt framlag kemur sér sérstaklega vel á þessum tíma árs. Skjólstæðingar okkar eru margir og mikilvægt að geta létt undir með þeim um jólahátíðina. Við verjum þessu fé vel í þeirra þágu," segir Ragnhildur í tilkynningu frá VÍS.

Sigrún Ragna segir starf Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur bæði þarft og gott og ekki síður þakklátt. „Það er þó sorglegt að nokkur skuli þurfa að nýta sér aðstoð sem þessa í okkar samfélagi en því miður er staðan þannig. Við hjá VÍS viljum leggja fjölskyldum lið sem hafa lítið á milli handanna svo fleiri eigi gleðileg jól. Nefndin er vel í stakk búin til að tryggja að féð nýtist sem best þar sem þörfin er mest. Umhyggja er eitt af leiðarljósum okkar og hana viljum við sýna í verki með margvíslegum hætti; þar á meðal þessum," segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert