Gengur á með dimmum éljum

Ganga mun á með dimmum éljum í höfuðborginni í dag, …
Ganga mun á með dimmum éljum í höfuðborginni í dag, í kvöld og í nótt. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ganga mun á með dimmum éljum á höfuðborgarsvæðinu í dag, í kvöld og fram á nótt en birta til á milli. Ekki er von á samfelldri snjókomu en skyggni gæti af og til orðið lítið vegna éljanna.

Samfelldari snjókoma er á vesturlandi norðan Skarðsheiðar, á Snæfellsnesi og yfir í Hrútafjörð. Þar hefur verið samfelld snjókoma í morgun og hvasst.

Að sögn Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræings hjá Veðurvaktinni er viðbúið að ökumenn hafi lent eða muni lenda í vandræðum á þessum slóðum. Hvasst er og mjög blint á Holtavörðuheiði en hún hefur verið lokuð í allan morgun.  Þar er samfelld snjókoma og stórhríðarveður.

Færð á vegum

Það er hálka og skafrenningur á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum en hálkublettir á Reykjanesbraut. Hálka er á flestum leiðum á Suðurlandi.

Höltavörðuheiðin er lokuð allri umferð og Brattabrekka er ófær. Búið er að opna Vatnaleið en Óveður og snjóþekja er víða á Snæfellsnesi en ófært er á Fróðárheiði og um Heydal, annars er víða hálka eða snjóþekja á Vesturlandi og hvasst.

Á Vestfjörðum er búið að opna leiðina um Þröskulda en þar er þæfingsærð. Kleifaheiði er opin með þæfingsfærð og skafrenningi en einnig er þæfingsfærð á Hálfdáni, Klettshálsi og Steingrímsfjarðarheiði sem og á sunnanverðum Vestfjörðum. Annars staðar er snjóþekja eða hálka, en unnið er að hreinsun.

Lokað og allur akstur bannaður á Vatnsskarði og á Þverárfjalli. það er snjóþekja og snjókoma á flestum leiðum í Húnavatssýslu.  Flughálka með stórhríð er frá Sauðárkróki að Hofsósi. Ófært með strórhríð frá Hofsósi að Siglufirði. Stórhríð og slæmst skyggni í Skagafirðinum. þungfært og óveður frá hörgárdal að Öxnadal. Ófært er á Öxnadalsheiði og óveður. Ófært með stórhríð frá Akureyri að Kræklingahlíð og er ekkert ferðaveður er á þessum slóðum.  Hálka og skafrenningur er á Víkurskarði.

Þæfingsfærð er á Hólasandi og kinninni með stórhríð. Þungfært með stórhríð í Ljósavatnsskarði. Snjóþekja og skafrenningur á Mývatnsöræfum að Biskupshálsi en hálkublettir á Jökuldal en hálka og skafrenningur á Möðrudalsörfæfum.

Hálka er á Fagradal, Fjarðarheiði og Oddskarði en flughált frá Breiðdalsvík að Fáskrúðsfirði. Snjóþekja og éljagangur eða hálka á velflestum vegum á Austur- og Suðausturlandi Frá Kirkjubæjarklaustri að Vík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert