Gunnar Nelson í horninu hjá McGregor

Gunnar Nelson mun styðja vin sinn og æfingafélaga Conor McGregor …
Gunnar Nelson mun styðja vin sinn og æfingafélaga Conor McGregor í Boston í janúar. mbl.is/Árni Torfason

Írinn og Íslandsvinurinn Conor McGregor hefur beðið Gunnar Nelson að vera í horninu hjá sér í bardaga gegn Dennis Siver á risabardagakvöldi í UFC í Boston þann 18. janúar nk. McGregor verður aðalnúmerið þetta kvöldið, en keppnin fer fram í TD Garden-höllinni. 

McGregor er góðvinur Gunnars og þeir æfa undir handleiðslu sama þjálfara, Johns Kavanagh. Þeir hafa æft mikið saman, meðal annars á Íslandi seinasta sumar þegar æfingar fyrir bardagakvöldið í Dublin fóru fram. Að sögn Haraldar Nelson, föður og umboðsmanns Gunnar, hafa þeir þó ekki æft eins mikið saman að undanförnu og þeir ætluðu sér vegna veikinda McGregors.

Haraldur segir það þó vel geta verið að félagarnir æfi saman fyrir bardagann, en það komi betur í ljós upp úr áramótum. „Það gæti verið að Gunni fari út til Írlands fljótlega upp úr áramótum ef Conor vill að hann æfi með sér en það er ekkert ákveðið í þeim efnum. Ef ekki þá flýgur hann beint til Boston um viku fyrir bardagann,“ segir hann.

Þá segist hann búast við miklu stuði í kringum keppnina. „Þarna verða líka fleiri vinir okkar eins og Cathal Pendred sem hefur einnig komið oft í Mjölni og æft. Þetta verður mjög skemmtilegt.

Aðspurður segir Haraldur það eftir að skýrast hvort einhver bardagi komi upp hjá Gunnari á næstunni. „Það er ekki komið í ljós hvenær hann mun berjast næst sjálfur. Ég held það komi ekki í ljós fyrr en um áramótin úr þessu en maður veit aldrei. Símtalið gæti þess vegna borist í dag eða á morgun.“

Írski bardagakappinn Conor McGregor á æfingu í Mjölni.
Írski bardagakappinn Conor McGregor á æfingu í Mjölni. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert