Köld og hvít jól um allt land

Jólasýning Árbæjarsafnsins.
Jólasýning Árbæjarsafnsins. Eggert Jóhannesson

Vetur konungur virðist hafa ákveðið að láta mikið fyrir sér fara hér á landi í desembermánuði, festa rætur um stund og stíga villtan dans við Kára um landið allt. Við erum síður en svo laus við snjóinn, vindinn, kuldann og lægðirnar. Það virðist alltaf vera ein í pokahorninu, þær koma á færibandi.

Von er á krappri lægð á laugardaginn sem færir okkur vaxandi suðaustanátt með mikilli snjókomu sem verður að slyddu og rigningu með kvöldinu.

Búist er við stormi (meðalvindi  meira en 20 m/sek) og því getum við ekki dregið trampólínin fram um sinn. Versta veðrið verður á suður- og vesturströnd landsins. Hiti fer upp fyrir frostmark um kvöldið.

Á sunnudaginn kólnar með norðan- og norðaustanátt. Enginn stormur er sjáanlegur fram að jólum, nema ef til vill á Vestfjörðum. Þar verður hvassviðri á sunnudaginn með snjókomu.

Að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands eru líkur á hvítum og köldum jólum um allt land og ekki að sjá að snjórinn sé á förum á köldu norðanáttinni sem mun ríkja næstu daga.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn: 

Suðvestan 18-25 m/s suðvestan- og vestanlands og éljagangur, hvassast við ströndina, en dregur smám saman úr vindi í dag. Suðvestan 8-15 um landið norðaustanvert og stöku él. Suðvestan 10-20 m/s síðdegis.

Enn hægari í kvöld, en gengur í norðaustan 10-18 á Vestfjörðum. Norðlæg átt á morgun 8-15 m/s og él, hvassast við suðvestur- og vesturströndina, en hægari og úrkomulítið austantil. Frost 0 til 7 stig, en sums staðar frostlaust við suður- og austurströndina.

Á föstudag:
Norðan og norðaustan 13-20 m/s, hvassast NV-til fyrir hádegi, en A-lands um kvöldið. Snjókoma eða él, en bjart með köflum S-lands. Frost 1 til 10 stig, kaldast inn til landsins.

Á laugardag:
Gengur í suðaustan 15-23 m/s með snjókomu eða slyddu og rigning um kvöldið, fyrst SV-lands. Hægara og úkomulítið NA-lands fram á kvöld. Hlýnandi veður í bili.

Á sunnudag:
Ákveðin austan- og norðaustanátt og snjókoma eða éljagangur. Rofar til SV-til seinni partinn. Kólnandi veður.

Á mánudag og þriðjudag (Þorláksmessa):
Útlit fyrir norðaustlæga átt með snjókomu eða éljum, en úrkomulítið SV-til. Fremur svalt í veðri.

Við erum síður en svo laus við snjóinn, vindinn, kuldann …
Við erum síður en svo laus við snjóinn, vindinn, kuldann og lægðirnar mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert