Komu mömmu á óvart

Bræðurnir Henry Kristófer Harðarson og Ólafur Már Harðarson ákváðu að gefa móður sinni, Þuríði Rafnsson, snemmbúna jólagjöf. Henry er búsettur í Kaupmannahöfn og Ólafur í Vestmannaeyjum en móðir þeirra býr í Svíþjóð.

„Við búum öll í sitthvoru lagi og höfum gert það í nokkur ár svo tími okkar saman hefur verið mjög takmarkaður,“ segir Henry. Móðir hans opnaði nýverið smurbrauðsverslun í Ängelholm, sem er norðan við Helsingborg, og hefur því ekki haft tíma til að bregða sér til Íslands að hitta Ólaf lengi.

Ólafur átti flugmiða til Svíþjóðar fyrir jólin en þeir bræður ákváðu að breyta honum svo sonurinn frá Íslandi gæti komist fyrr í faðm fjölskyldunnar og komið móður sinni rækilega á óvart.

„Hún kom okkur oft á óvart með þessum hætti þegar við vorum yngri, þá kom ég óvænt í heimsókn til bróðurs míns og öfugt. Í þetta skipti var komið að henni,“ segir Henry.

Henry fer sjálfur til Svíþjóðar á næstu dögum og mun því fjölskyldan halda upp á jólin í sameiningu. „Við reynum að halda jól saman en það hefur oft verið erfitt. Við áttum heima í Barselóna en bróðir minn er sannur Íslendingur og vill síður búa annars staðar en í Eyjum,“ segir Henry en ljóst er að þrátt fyrir fjarlægðirnar sem skilja þau að er fjölskyldan afar náin.

Myndbandið hefur hlotið sterkar viðtökur frá því að það birtist í gær en þegar Henry vaknaði í morgun hafði verið horft á það yfir 3.000 sinnum. „Ég bjóst ekki við þessu, ég hélt að aðrir fjölskyldumeðlimir myndu hafa gaman að þessu en það er gaman að þetta gleður fólk.“

Á myndbandinu hér að neðan má sjá þegar Ólafur gengur inn í verslun Þuríðar og viðbrögðin láta ekki á sér standa. Undir hljómar sérlega viðeigandi smellur Mariuh Carey „All I Want For Christmas Is You“ og það er ekki laust við að manni vökni um augu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert