Velja ungt fólk með pólitíska fortíð

mbl.is/Hjörtur

Pólitískir aðstoðarmenn ráðherra hafa í gegnum tíðina átt það sameiginlegt í flestum tilfellum að vera á aldrinum 20-40 ára, hafa starfað innan sama stjórnmálaflokks og viðkomandi ráðherra og þekkt hann persónulega. Til að mynda úr starfi innan kjördæmis. Þá hafa pólitískir aðstoðarmenn ráðherra gjarnan haft bakgrunn sem fjölmiðlamenn. Háskólamenntun þeirra hefur yfirleitt verið á sviði félagsvísinda.

Þetta segir í grein Gests Páls Reynissonar, stjórnmála- og stjórnsýslufræðings, og Ómars H. Kristmundssonar, prófessor við Háskóla Íslands, í nýjasta tölublaði tímaritsins Stjórnmál & stjórnsýsla þar sem skoðaðir eru undanfarnir fjórir áratugir í þessu sambandi. Með því að leggja áherslu á þessa þætti við val á aðstoðarmönnum sé undirstrikað að þeir séu fyrst og fremst pólitískir trúnaðarmenn ráðherra. Val þeirra hefur síður byggst á tiltekinni reynslu eða þekkingu þó finna megi dæmi um slíkt og tengsl á milli bakgrunns þeirra og málaflokka viðkomandi ráðuneytis hafa yfirleitt ekki verið mikil segir í greininni.

Stjórnmálaflokkarnir halda eins á málum

„Ekki verður séð að mismunandi hefðir ríki milli stjórnmálaflokka um val á aðstoðarmönnum ráðherra. Í heildina litið er óverulegur munur á bakgrunni þeirra eftir stjórnmálaflokkum. Þó má greina að vinstri flokkarnir hafi frekar ráðið til sín sérfræðinga utan stjórnmálaflokka en hinir flokkarnir tveir. Þar sem hlutfall faglegra ráðgjafa er lágt getur þessi munur stafað af tilviljun. Miðað við viðtöl við faglega ráðgjafa virðist sem valið hafi tengst sérstökum aðstæðum eða nýjum áherslum ráðherra fremur en hefðum innan flokks,“ segir ennfremur og áfram:

„Ráðherrar óháð stjórnmálaflokki virðast á síðastliðnum tveimur áratugum leita frekar eftir aðstoðarmönnum með bakgrunn á sviði fjölmiðla en reynslu á sviði stjórnunar hjá hinu opinbera eða í einkageiranum. Ekki virðist sem ráðherrar bæti upp eigið reynsluleysi í embætti með reynslumiklum aðstoðarmönnum. Ráðherrar sem ekki hafa setið í embætti eða verið í öðrum pólitískum embættum sækja sér ekki í meira mæli aðstoð pólitískra eða faglegra ráðgjafa. Meðalaldur aðstoðarmanna reynslulítilla ráðherra er ekki hærri en hinna.“

Hverfa yfirleitt aftur til fyrri starfa

Einnig er skoðað hvað hafi tekið við hjá pólitískum aðstoðarmönnum ráðherra þegar þeir hafa látið af störfum sem slíkir. Flestir hafi horfið til fyrri starfa en einnig væru dæmi um að starfið hafi verið stökkpallur til frekari pólitískra metorða. „Eftir að hafa starfað sem aðstoðarmaður er algengast að horfið sé aftur til sömu starfa. Þó er greinilegt að fyrir hluta aðstoðarmanna er starf hjá ráðherra liður í pólitískum frama. Þetta endurspeglast í þeim fjölda aðstoðarmanna sem boðið hefur sig fram til Alþingis eða sveitarstjórnar og jafnvel hlotnast embætti ráðherra.“

Greinina í heild má nálgast hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert