„Oft séð það verra“

Dettifoss kom til hafnar í Sundahöfn í Reykjavík í kvöld.
Dettifoss kom til hafnar í Sundahöfn í Reykjavík í kvöld. Árni Sæberg

Skipstjóri Dettifoss segir að þótt veðrið hafi verið slæmt þegar tuttugu gámar féllu útbyrðis af skipinu í gær þá hafi hann oft séð það verra. Ekki hafi hins vegar verið þorandi að senda menn út til að huga að gámunum. Ekki hafi verið um annað að ræða en að láta þá fara.

Dettifoss kom í höfn í Reykjavík í kvöld eftir hrakningar á sjó. Tuttugu gámar skipsins féllu útbyrðis norðvestur af Færeyjum þegar skipið var á leið til Íslands í gær.

„Það var mikill veltingur og skipið erfiðaði mjög mikið í þungum sjónum. Síðan er eitthvað sem gefur sig og þá tók við keðjuverkun sem leiddi til þess að gámarnir fóru,“ segir Ívar Gunnlaugsson, skipstjóri Dettifoss.

Hann segir að áhöfnin hafi öll haldið sig innandyra á meðan helstu ósköpin gengu yfir, en gámana tók út á eins og hálfs tíma tímabili, frá um fimm síðdegis í gær til klukkan hálfsjö.

„Það var ekki þorandi að senda nokkurn mann út. Þetta eru þykkar stangir sem slitna og þá er ekkert að gera annað en að hleypa gámunum frá borði, helst
þegjandi og hljóðalaust,“ segir Ívar.

Nánar er rætt við Ívar í Morgunblaðinu sem kemur út á morgun.

Tuttugu gámar féllu útbyrðis í aftakaveðri í gær.
Tuttugu gámar féllu útbyrðis í aftakaveðri í gær. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert