Hátíðleg og notaleg jól í Konukoti

Allt að átta konur eru í Konukoti á aðfangadagskvöld. Þátttaka …
Allt að átta konur eru í Konukoti á aðfangadagskvöld. Þátttaka fólks í samfélaginu er mikilvæg Konukotinu. Sigurgeir Sigurðsson

„Við gerum alltaf klárt fyrir átta konur og erum með gjafir fyrir þær,“ segir Kristín Helga Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Konukots. Konukot er athvarf Rauða krossins fyrir heimilislausar konur á höfuðborgarsvæðinu. Elleftu jólin verða haldin í Konukoti í kvöld.

„Við útbúum stóra bréfpoka sem eru skreyttir og ofan í þá fara hlutir sem okkur finnst skipta máli að þeir fái sem dvelja í athvarfi á þessu kvöldi. Það er ný bók, konfekt, eitthvert fataplagg svo þú farir ekki í jólaköttinn og eitthvað snyrtivörukyns,“ segir Kristín. Hún segir hina og þessa hafa stutt Konukotið í gegnum árið og nú síðast hafi það verið konur úr félaginu Emblu sem höfðu samband við kotið fyrir um tveimur mánuðum og komu að jólagjafainnkaupunum. Kristín segir það skipta miklu máli að fólk í samfélaginu láti taka til sín. Það skili sér inn í stofu, vitandi að gjafirnar séu þannig til komnar en ekki keyptar rétt fyrir jól.

Hún segir þó að það sé ýmislegt sem berist á síðustu stundu og nefnir hún forréttinn sérstaklega í því samhengi.

„Það sem hefur orðið að hefð er að það mætir hingað til okkar úrvalskokkur. Hann græjar kvöldmatinn og þetta er afskaplega fínt þó það sé hefðbundið sem við erum með í matinn,“ segir Kristín en boðið er upp á hamborgarhrygg í kvöld og heimagerðan ís í eftirrétt sem sjálfboðaliði við athvarfið býr til. Hún segir fólk oft vera að banka upp á rétt áður en klukkan slær sex, til dæmis með graflax eða paté, og því ræðst það oft á lokametrunum hvað sé í forrétt.

„Þó að fólk sé í mis góðu ástandi þá einhvernvegin næst að búa til þá stemningu að það langar alla að setjast niður saman við vel uppdekkað, fallegt borð,“ segir Kristín og bætir við að allir leggist á eitt við að eiga hátíðlega, notalega og góða stund saman. Hún segir það stundum koma upp að einhverjir vilji skjótast í kirkju, til dæmis á miðnæturmessu í Hallgrímskirkju, og það sé voða notalegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert