Ruslajól í Breiðholti

Ljósmynd/S. Andrea Ásgeirsdóttir

Íbúar í Breiðholti segja jólakveðjuna kalda frá Reykjavíkurborg þetta árið en ekki tókst að tæma rusl úr tunnum í mörgum hverfum. Þegar óveðrið gekk yfir borgina í síðustu viku þurfti að hætta sorphirðu fyrr en ella. Var það gefið út að sorphirðumenn yrðu lengur við vinnu fram að jólum þannig að það myndi takast að vinna upp töfina sem varð á sorphirðu og ná þannig að hirða allt rusl fyrir jól. Það gekk ekki eftir. Sorphirða verður engin fyrr en 27. desember þegar starfsmenn Sorphirðu Reykjavíkur mæta aftur til starfa eftir jólafrí.

„Mér finnst svo leiðinlegt að heilt hverfi hafi verið skilið eftir. Ég veit að það var óveður en það sýnir bara að tíu dagar á milli sorphirðu er of langt, það má ekkert út af bregða. Nú eru jólin og við erum með fulla ruslageymslu,“ segir S. Andrea Ásgeirsdóttir, íbúi í Írabakka 34.

„Við hringdum í gær og það var lofað að þeir kæmu í dag en þeir sviku það,“ segir Andrea og bætir við að boðist hefði verið til þess að fara með tunnurnar út á bílastæði en þeir hafi þrátt fyrir það ekki viljað sækja ruslið.

„Þetta verður ekki tæmt fyrr en eftir helgi. Við þurfum bara að sitja uppi með fulla ruslageymslu. Ég get ekki einu sinni haft ruslapoka í rennunni af því þær eru allar fullar. Fólk verður bara að geyma ruslið inni hjá sér eða í svörtum poka í ruslageymslu. Við erum mjög ósátt við þetta,“ segir Andrea.

Sorphirða heldur áfram 27. desember

Ingimundur Ellert Þorkelsson, flokkstjóri hjá Sorphirðu Reykjavíkur, segir lítið um málið að segja annað en að það sé ekki búið að hreinsa rusl á mörgum svæðum Breiðholts og ruslið verði tekið um leið og færi gefst.

„Allt á kafi í snjó í eina og hálfa viku hefur auðvitað áhrif á svona vinnu,“ segir Ingimundur. Hann segir Breiðholtið vera nánast eina svæðið þar sem sorphirða náðist ekki fyrir jól.

Aðspurður hvað olli því að íbúar Breiðholts sitji uppi með ruslið yfir jólin segir hann að rusl sé tekið eftir ákveðinni röð og Breiðholt hafi verið næst í röðinni.

Ljósmynd/S. Andrea Ásgeirsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert