Hefur safnað jólakortum í hálfa öld

Aðalgeir Egilsson í stofunni á Mánárbakka með eina möppuna með …
Aðalgeir Egilsson í stofunni á Mánárbakka með eina möppuna með jólakortunum. Við hlið hans er rúmlega 80 ára gamalt heimasmíðað jólatré sem hann heldur mikið upp á. mbl.is/Atli Vigfússon

„Maður skoðaði mikið af jólakortum þegar maður var krakki og það var óskaplega gaman. Líklega eru u.þ.b. 50 ár síðan ég fór að safna kortum og smám saman fóru að koma kort frá öðru fólki til mín. Ég er alæta á kort og nú á ég tugi þúsunda af jólakortum af ýmsum gerðum.“ Þetta segir Aðalgeir Egilsson, bóndi og safnari, á Mánárbakka á Tjörnesi, en hann á einnig þúsundir póstkorta sem honum hafa verið gefin um dagana.

„Elsta kortið mitt er frá 1801 og það er frá Þýskalandi. Jólakort með íslenskum myndum komu fyrst út í lok 19. aldar og ég á nokkur íslensk kort frá árinu 1898. Almennt fóru Íslendingar ekki að senda jólakort, til vina og ættingja, fyrr en í byrjun 20. aldar og um 1910 var það orðið mjög algengt að senda kort í tilefni jólanna,“ segir Aðalgeir sem hefur kynnt sér sögu kortanna mjög vel. Hann segir að fyrstu kortin með íslenskum myndum hafi aðallega verið gefin út af Þjóðverjum, en hann á líka töluvert af frönskum kortum sem eru töluvert yngri en þau þýsku.

Aðalgeir á mikið af jólakortaseríum og reynir að fylla upp í þær til þess að eiga þær heilar. Oft eru 6-8 kort í seríu og getur verið erfitt að finna þau kort sem vantar inn í ef þær eru mjög gamlar. Uppáhaldsserían hans er dönsk-íslensk með myndum af smájólasveinum sem prentuð var um 1910. Það eru 6 kort í þeirri seríu og myndefnið er frá alþekktum íslenskum stöðum. Þar má sjá danska smájólasveina í Almannagjá, við Geysi, hjá Þvottalaugunum í Reykjavík, og á Austurvelli. Þá eru þessir merkissveinar á bryggjunum við Reykjavíkurhöfn og á togurum í ólgandi sjó. Þetta eru gríðarlega vandaðar teikningar og líklega ekki margir sem eiga alla seríuna.

Margir merkilegir teiknarar

Fyrr á árum var mikið af mjög góðum listamönnum sem teiknuðu kortin og heldur Aðalgeir upp á marga þeirra. Má þar nefna Tryggva Magnússon, en eftir hann er til mjög mikið af fallegum kortum og margar seríur. Þá nefnir hann teiknara eins og Stefán Jónsson, en hans kort eru mjög falleg og fjölbreytt. Auk þessara tveggja nefnir hann Halldór Pétursson og eru kort hans miklar perlu í augum Aðalgeirs. Systir Halldórs, Ágústa Snæland Pétursdóttir var góður kortateiknari og Barbara W. Árnason var einnig mjög flink. Þá nefnir Aðalgeir kort Bjarna Jónssonar, en eftir hann er til ógrynni af kortum og mörg þeirra mikil listaverk.

Fær fulla kassa af kortum

Aðalgeir segir að sér finnist jólakortin sem teiknuð voru frá aldamótum 1900 og fram til 1940 hafa verið fallegustu og fjölbreyttustu kortin. Eftir stríðsárin breyttist útgáfa korta nokkuð og minna varð um mjúkar línur í kortunum, eins og hann orðar það.

Í dag finnst honum að meira sé lagt upp úr því að gera jólakortin þannig að þau séu ódýr, en vinnan á þeim sé ekki gerð með sömu alúð og áður. Hann segir að samt sé til mikið af fallegum kortum í dag og safnið hans stækkar með hverjum jólum.

Aðalgeir segist vera í góðu sambandi við aðrar jólakortasafnara víða um landið og oft er skipst á kortum. Sumir gefa honum heilu bunkana og stundum fær hann senda heila kassa af kortum og þá er mikil vinna fólgin í því að tína úr og flokka í albúmin. Allt er þetta skemmtilegt og Aðalgeir hlakkar alltaf til jólanna.

Kort eftir Tryggva Magnússon
Kort eftir Tryggva Magnússon
Kort eftir Halldór Pétursson
Kort eftir Halldór Pétursson
Tvö gömul kort úr safni Aðalgeirs á Mánárbakka
Tvö gömul kort úr safni Aðalgeirs á Mánárbakka
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert