Ábendingar borist um bílnúmerin

Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma hafa fengið bílnúmer bifreiða sem talið er að hafi verið ekið yfir leiði í Gufuneskirkjugarði. Að sögn Þórsteins Ragnarssonar, forstjóra kirkjugarðanna, verður þeim upplýsingum haldið til haga og þær afhentar lögreglu eftir helgina.

Tvisvar sinnum hefur verið keyrt yfir leiði í Gufuneskirkjugarði á síðustu dögum, fyrst daginn fyrir Þorláksmessu og svo aftur á jóladag. Ekið var niður eina grafarlengju með um fimmtán leiðum. Svo virðist sem að ökumennirnir hafi fest sig og spólað ofan á gröfunum með tilheyrandi spjöllum.

„Við höfum fengið bílnúmer send. Því verður haldið til haga og afhent lögreglunni þegar málið verður kært. Það er frá vitnum, það eru náttúrulega allir með síma,“ segir Þórsteinn.

Hann hvetur jafnframt þá sem ollu spjöllunum í kirkjugarðinum til þess að gefa sig fram.

Fyrri frétt mbl.is: Keyrt yfir fimmtán leiði og grafarkross

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert