Flugeldasala hófst um land allt í dag

Flugeldasala í Kópavogi
Flugeldasala í Kópavogi Árni Sæberg

„Við finnum fyrir gríðarlegum meðbyr í samfélaginu. Fólk er rosalega jákvætt gagnvart sölunni og okkur líður mjög vel með þetta,“ segir Kristján Maack, formaður Hjálparsveitar skáta í Kópavogi en flugeldasala hófst um land allt í dag. Kristján segir fyrsta daginn fara rólega af stað í ár líkt og undanfarin ár og því fari dagurinn í að koma upp búðunum og fínisera hlutina. 

Kristján hefur verið komið að flugeldasölu í að verða 30 ár og finnur hann mikinn mun á viðhorfi almennings gagnvart flugeldasölu björgunarsveitanna.

„Samfélagið er að taka þátt í þessu með okkur og er eiginlega að endurgjalda störf sjálfboðaliðans með því að taka þátt í öllu svona,“ segir Kristján og á þá við bæði sölu á neyðarkallinum og flugeldum. Hann telur viðhorfsbreytinguna vera til komna vegna fjölgun útkalla björgunarsveita og eins að umfjöllun um útköllin hafi aukist í fjölmiðlum á undanförnum árum og fólk geri sér betur grein fyrir því í hverju starf björgunarsveitarmanna felst.

50% sölunnar á gamlársdag

„Staðreyndin er sú að 50% af sölunni fer fram á gamlársdegi,“ segir Kristján og bætir við að veðrið sé sá utanaðkomandi þáttur sem hefur mest áhrif á sölu flugelda fyrir gamlárskvöld.

„Þessa þrjá daga eru björgunarsveitir að taka inn 70-80% rekstarfé ársins. Það skiptir því máli að veðrið sé gott og að við fáum ekki slæmt umtal eða óhapp. Við verðum að vanda okkur til verka og stíga varlega til jarðar,“ segir Kristján. Aðspurður hvernig gangi að manna vaktina á sölustöðum HSSK segir hann það taka smá tíma fyrir „risaeðluna að vakna“. Það sé verið að hringja í sjálfboðaliða í dag þar sem þeir skrá sig á flugeldasöluvaktir næstu daga.

„Þessir harðduglegustu eru búnir að vera að bæði fyrir jól og fyrstu dagana og svo verðum við alltaf fleiri og fleiri þegar nær dregur og síðustu dagana erum við komin með allan okkar mannskap í gang,“ segir Kristján og bætir við að það sé partur af hátíðarhöldunum hjá björgunarsveitarfólki að taka þátt í flugeldasölu.

Ekki gert ráð fyrir aukningu í flugeldasölu

Kristján segir að björgunarsveitirnar hafi ekki gert ráð fyrir aukningu í sölu á flugeldum í ár þegar gengið var frá pöntunum í janúar, fyrir tæpu ári síðan. Verð á flugeldum hefur ekki hækkað frá því í fyrra þrátt fyrir að innkaupaverð frá framleiðanda og umsýslugjöld hafi hækkað. Ástæðuna má rekja til þess að til móts við hækkunina kemur fríverslunarsamningurinn við Kína.

Hjálparsveit skáta í Kópavogi er með sex sölustaði í bænum. Í Toyota umboðinu á Nýbílavegi, í björgunarmiðstöðinni við Bakkabraut, í Kraftvélum við Smáratorg, í Áhaldahúsi bæjarins, á planinu fyrir framan Salalaug og við Krónuna í Kórahverfinu.

Tvær og hálf milljón flugeldagleraugna frá aldamótum

Jón Ingi Sigvaldason, markaðs- og sölustjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, segir að í ár fái um 22 þúsund börn gjafabréf upp á flugeldagleraugu. Ásamt Slysavarnarfélaginu kemur Íslandspóstur, Oddi og Blindrafélagið að verkefninu og segir Jón verkefnið vera til þess fallið að fá börn og fullorðna til að nota flugeldagleraugu. Frá aldamótum hafa björgunarsveitir flutt yfir tvær og hálfa milljónir öryggisgleraugna hingað til lands. 

Jón segir að mikið sé lagt upp úr forvarnarstarfi og nefnir í því samhengi myndband sem var gert á sínum tíma, Ekkert fikt. Myndbandið er ekki fyrir viðkvæma. Jón segir fræðslu og forvarnir hafa skilað sér þar sem minna sé um fikt nú til dags en áður. Hann segir krakka ekki gera sér grein fyrir því hversu alvarlegt það sé að fikta með flugelda og það sé í raun ekkert svo frábrugðið því sem hryðjuverkamenn eru að gera með sprengjur í mið-austurlöndum. Þá minnir Jón á að flugeldar fara aldrei vel saman með áfengi.

Flugeldasala björgunarsveitanna hófst í dag.
Flugeldasala björgunarsveitanna hófst í dag. Friðrik Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert