Búið að kæra báða til lögreglu

Starfsmenn kirkjugarðanna eiga erfitt með að meta hversu mikið tjónið …
Starfsmenn kirkjugarðanna eiga erfitt með að meta hversu mikið tjónið er. mbl.is/Styrmir Kári

Þeir ökumenn sem urðu uppvísir að því að keyra ökutæki sín yfir leiði í Gufuneskirkjugarði hafa nú báðir gefið sig fram til lögreglu. Þetta staðfestir Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, í samtali við mbl.is. Kirkjugarðarnir lögðu fram kæru á hendur ökumönnunum í dag.

„Lögreglan fékk nú í morgun öll okkar gögn í hendur og mun hún kalla til þá tvo ökumenn sem hafa gefið sig fram til skýrslutöku. Síðan búumst við við að sátt náist við ökumennina um að þeir greiði það tjón sem þeir ollu,“ segir Þórsteinn.

Starfsmenn kirkjugarðanna eiga erfitt með að meta hversu mikið tjónið er en Þórsteinn segir að merkingar við leiði hafi ekki orðið fyrir skemmdum.

„Skemmdirnar eru nánast eingöngu á jarðveginum og ég veit ekki til þess að skemmdir hafi orðið á krossum eða legsteinum. Við áttum okkur samt ekki alveg á umfangi tjónsins á meðan snjórinn liggur yfir þessu öllu og sjáum það í raun ekki fyrr en það verður svo til autt.“

„Það má ugglaust gera betur“

Aðspurður hvort hann telji að kirkjugarðarnir beri einhverja ábyrgð á tjóninu vegna ónógra merkinga við ökuleiðir segir Þórsteinn: „Það má ugglaust gera betur en við reyndum að koma þeim skilaboðum áleiðis gegnum fjölmiðla að hliðarleiðir í kirkjugörðunum yrðu lokaðar á meðan aðalleiðir yrðu opnar. Það stendur einmitt til að setja nýjar merkingar þarna og víðar í öðrum görðum til að reyna að fyrirbyggja að svona eigi sér stað. Við stefnum á að ráðast í þær framkvæmdir á næsta ári en það er auðvitað háð nýrri fjárhagsáætlun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert