Öryggi sjómanna stefnt í tvísýnu

mbl.is/Sigurður Bogi

Sjómannafélag Íslands gagnrýnir harðlega seinagang Landhelgisgæslunnar á síðasta ári í nýrri ályktun félagsins. Í  henni kemur fram að sjómenn mættu ítrekað sæta því að öryggi þeirra væri stefnt í tvísýnu.

Í ályktuninni er nefnt sem dæmi þegar að stýrimaður á Örfirisey fékk hjartaáfall 5. desember síðastliðinn þar sem togarinn var staddur 30 mílur útaf Ísafjarðardjúpi. 

„Það tók þyrlu Gæslunnar þrjár klukkustundir að komast að togaranum en hún hafði verið yfir gosstöðvunum norður af Vatnajökli þegar neyðarkall barst. Viðbragðstími varð þrjár klukkustundir í stað klukkustundar. Allan þann tíma var stýrimaður meðvitundarlaus í bráðri lífshættu. Það var eingöngu fyrir snarræði og fumlaus viðbrögð félaganna um borð að lífi hans var bjargað,“ segir í ályktuninni.

Strand Akrafells er einnig nefnt sem dæmi. Í ályktuninni kemur fram að það hafi tekið Landhelgisgæsluna tólf tíma að manna varðskipið Þór þegar að Akrafell strandaði við Vattarnes í byrjun september. 

„Gæslunni er haldið í fjársvelti og starfsfólki gert erfitt fyrir. Enginn starfandi skipherra var á landinu þegar neyðarkall barst frá Akrafellinu og áhöfn kölluð úr fríi. Tólf tímum eftir strandið fyrir austan lagði Þór loks úr Reykjavíkurhöfn áleiðis austur meðan Akrafellið var dregið inn Eskifjörð,“ segir m.a.

Kemur einnig fram að fyrir nokkrum árum hafði Landhelgisgæslan þrjár áhafnir til að manna tvö skip en er nú aðeins með eina og hálfa áhöfn til að manna eitt skip hverju sinni. Er jafnframt nefnt dæmi flutningaskipsins Green Freezer sem bakkað var upp í fjöru á Austurlandi í september. Þurfti Landhelgisgæslan þá að beita íhlutunarrétti til þess að ná skipinu af strandstað. Nokkrum dögum eftir hörmungarsögu Akrafells var flutningaskipinu Green Freezer bakkað upp í fjöru fyrir austan. Gæslan þurfti þá að beita þá íhlutunarrétti til þess að ná skipinu af strandstað.

 „Aðalfundur Sjómannafélags Íslands krefst þess að stjórnvöld geri dugmiklu starfsfólki Landhelgisgæslunnar kleift að standa við markmið um öryggi sjófarenda,“ segir jafnframt.

Í samtali við mbl.is segir Jónas Garðarsson, formaður félagsins að þetta sé ekki aðeins almennt álit meðal félagsmanna, heldur á meðal sjómanna landsins. Hann gagnrýnir einnig það að tæki gæslunnar skuli vera leigð út.

„Það eru til lög um landhelgisgæslu sem segja til um til hvers tæki gæslunnar skuli vera notuð,“ segir Jónas. „Til dæmis samræmast þessar æfingar í Miðjarðarhafi ekki lögum um Landhelgisgæslu. Tækin eiga heldur að vera hér á landi og sinna þeim verkefnum sem þeim er ætlað.“

 

Jónas Garðarsson er formaður Sjómannafélags Íslands.
Jónas Garðarsson er formaður Sjómannafélags Íslands. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert