Fækkar enn í þjóðkirkjunni

Þjóðskrá Íslands
Þjóðskrá Íslands mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Alls gengu 863 fleiri úr þjóðkirkjunni en í hana á síðustu þremur mánuðum síðasta árs samkvæmt nýjum tölum Þjóðskrár. Á sama tíma fjölgaði í fríkirkjunum, lífsskoðunarfélaginu Siðmennt og öðrum trúfélögum. Mest fjölgaði þeim sem skráðu sig utan trú- og lífsskoðunarfélaga.

Úr þjóðkirkjunni gengu 945 manns á tímabilinu október til desember 2014 en 82 skráðu sig í hana. Af þeim sem gengu úr ríkiskirkjunni skráðu 57% sig utan trú- og lífsskoðunarfélaga, 23% í fríkirkjurnar þrjár, um 10% í önnur trúfélög og um 10% í Siðmennt.

Í heildina gengu 163 fleiri í fríkirkjurnar þrjár en gengu í þær og fimmtíu fleiri í önnur trúfélög en úr þeim. Í lífsskoðunarfélagið Siðmennt gengu 212 fleiri en úr því. Nýskráðir utan félaga voru 439 fleiri en gengu í félög eftir að hafa verið utan félaga.

Á vef Þjóðskrár eru breytingarnar einnig greindar eftir kyni og aldri þeirra sem skiptu um félag. Þar má sjá að flestar breytingarnar eru hjá fólki sem fætt er á árunum 1986-1995, það er að segja 19-28 ára. Flestar breytingarnar í þeim aldurshópum eru sömuleiðis úrskráningar úr þjóðkirkjunni og nýskráningar utan félaga.

Frétt á vef Þjóðskrár um breytingar á trú- og lífsskoðunarfélagsaðild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert