Hnapparafhlöður stórhættulegar börnum

Rafhlaða situr föst í vélinda barns.
Rafhlaða situr föst í vélinda barns. Ljósmynd/Evrópusambandið

Síðustu tíu ár hafa svokallaðar hnapparafhlöður orðið æ algengari á heimilum. Rafhlöðurnar geta verið stórhættulegar börnum og segir Herdís L. Storgaard, framkvæmdastjóri Miðstöðvar slysavarna barna, að mikilvægt sé að vekja athygli á málefninu til að koma í veg fyrir slys. 

Rafhlöðurnar, sem einnig eru þekktar sem lithium-rafhlöður, eru að sögn Herdísar eitt það hættulegasta sem finnst á heimilinu þegar kemur að eiturefnum, ásamt þvottaefni fyrir uppþvottavélar. Þær má finna í fjarstýringum og raftækjum, sem og leiktækjum fyrir eldri börn. Börn undir þriggja ára aldri eru þó í mestri hættu að lenda í slysum vegna þeirra.

Nokkur börn látist vegna rafhlaðnanna

Nokkur börn hafa látist af völdum rafhlaðnanna í heiminum á síðustu árum, en fjöldi slysa vegna þeirra hér á landi er óljós. Ekki hefur orðið dauðaslys hér á landi vegna þeirra, en nokkur börn hafa þó leitað til læknis á liðnum árum, og eru tilfellin misalvarleg.

Herdís segir ung börn oft ekki gera greinarmun á rafhlöðunum og sælgæti, vegna þess hve lítil þau eru. Það þurfi því að passa vel upp á það að börnin komist ekki í snertingu við þau. „Framleiðendur raftækja og leikfanga sem innihalda þessar rafhlöður reyna auðvitað að gera þetta barnaöruggt og það er til dæmis ekki fyrir hvern sem er að opna þessar fjarstýringar. En það hefur gerst að fólk missir þær í gólfið og þá geta þær opnast og rafhlaðan týnst, en lítið barn getur fundið hana seinna,“ segir hún.

Geta gert gat á vélinda eða maga

Að sögn Herdísar eru hættulegustu dæmin þau þegar rafhlaðan festir sig í vélinda eða maga barns, en um leið og hún leggst upp að líffæri blotnar járnið og innihaldið fer að leka. Fljótlega eftir að það gerist byrjar að myndast brunasár og á næstu klukkutímum eða sólarhringum getur komið gat á vélindað eða magann með skelfilegum afleiðinum. 

Helstu einkenni hjá börnum eru ógleði eða uppköst, hiti, hósti, verkir í maga, öndunarörðugleikar, niðurgangur, blóð í saur, almenn vanlíðan og verkir í koki eða hálsi. Þá vilja börn sem hafa gleypt rafhlöður sem þessar oft hvorki borða né drekka.

Forgangsmál varðandi öryggi barna

Evrópusambandið sendi frá sér aðvörun á síðasta ári þar sem þetta málefni var forgangsmál varðandi öryggi barna. Var það að gefnu tilefni, enda höfðu nokkur börn látist í Evrópu af völdum þessara rafhlaðna. Þá síðast hafði ungt barn látist í Frakklandi af völdum þeirra.

„Það sem er óhugnanlegast við þetta er að foreldrarnir eiga mjög erfitt með að greina þetta ef þeir hreinlega vita ekki eða verða ekki varir við að rafhlaðan sé horfin eða að barnið hafi náð í hana,“ segir Herdís. Hún segir dæmið í Frakklandi hafa verið einstaklega hræðilegt, þar sem rafhlaðan hafði verið í maga barnsins í 48 klukkustundir þegar það lést. 

„Barnið var búið að vera með slen og veikt og það var búið að fara með það á bráðamóttöku tvisvar þar sem það var sent heim í bæði skiptin. Það endaði með því að barnið byrjaði að æla blóði og blæddi að lokum út í örmum foreldra sinna,“ segir hún, og útskýrir að þá hafi rafhlaðan fest sig við magavegg barnsins sem olli því að það kom gat á æð.

Mikilvægt að vera meðvitaður um hætturnar

Að sögn Herdísar er mikilvægt að almenningur sé meðvitaður um það hversu hættulegar þessar rafhlöður eru, og geymi þær í læstum skápum með barnalæsingu. Þá séu rafhlöðukassar með notuðum rafhlöðum einnig geymdir á stað þar sem börn komast ekki í þau. Jafnframt eigi börn undir þriggja ára aldri ekki að leika sér með leikföng eldri barna sem geta innihaldið þessar rafhlöður.

„Þegar maður er í forvörnum bíður maður ekki eftir að einhver deyi. Það þarf að koma þessum upplýsingum út um leið svo fólk átti sig á þessari miklu hættu,“ segir Herdís, en til að undirstrika áhrifin kom hún hnapparafhlöðu fyrir á áleggi. Tók hún myndir af álegginu eftir þrjátíu mínútur, tvær klukkustundir og 48 klukkustundir, og hefur rafhlaðan þá brennt áleggið, eins og sjá má á myndum við þessa frétt.

Settu viðvaranir á rafhlöðukassa

Loks bendir Herdís á nýja rafhlöðukassa sem Efnamóttakan hefur látið framleiða, þar sem ábendingar um hættur koma fram. „Ég rak augun í það að engar merkingar væru á rafhlöðukössunum og hafði því samband við Efnamóttökuna. Þeir brugðust strax við og breyttu öllum kössunum hjá sér,“ segir hún. „Það er flott framtak hjá svona fyrirtæki að sýna samfélagslega ábyrgð og við erum að vonast til þess að þeir veki athygli fólks á því hversu hættulegt þetta er.“

Ef grunur leikur á að barn hafi gleypt hnapparafhlöðu er mikilvægt að leita samstundis á bráðamóttöku eða heilsugæslustöð.

Herdís L. Storgaard, framkvæmdastjóri Miðstöðvar slysavarna barna.
Herdís L. Storgaard, framkvæmdastjóri Miðstöðvar slysavarna barna. Guðmundur Rúnar Guðmundsson
Þrátíu mínútum eftir að rafhlaða var lögð á áleggið.
Þrátíu mínútum eftir að rafhlaða var lögð á áleggið. Ljósmynd/Herdís L. Storgaard
Tveimur klukkustundum eftir að rafhlaða var lögð á áleggið.
Tveimur klukkustundum eftir að rafhlaða var lögð á áleggið. Ljósmynd/Herdís L. Storgaard
48 klukkustundum eftir að rafhlaða var lögð á áleggið.
48 klukkustundum eftir að rafhlaða var lögð á áleggið. Ljósmynd/Herdís L. Storgaard
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert