Ekki nóg að ýta bara á græna takkann

Ekki verður nóg að ýta á græna takkann eftir 19. …
Ekki verður nóg að ýta á græna takkann eftir 19. janúar. mbl.is/Golli

Landsmenn komast ekki lengur upp með að ýta eingöngu á græna takkann þegar greiðsla fer fram með greiðslukortum með örgjörva eftir 19. janúar. Þurfa þá allir að vera búnir að leggja „pinnið á minnið“. Þetta segir Sigurður Hjalti Kristjánsson, verkefnisstjóri Pinnið á minnið.

Átaksverkefnið gengur út á að koma á réttri notkun greiðslukorta með örgjörva á Íslandi og er átakið unnið samkvæmt heimild Samkeppniseftirlitsins. Farið var af stað með verkefnið fyrir liðlega þremur og hálfu ári.

Landsmönnum hefur gengið vel að tileinka sér breytinguna

„Nú snýr posinn að þér og þú þarft að staðfesta með pinni,“ segir Sigurður og bætir við að landsmenn hafi almennt lagt pinnið á minnið og gengið vel að tileinka sér breytinguna. „Þar til nú hafa allir útgefendur greiðslukorta heimilað að það sé ýtt á græna takkann,“ segir Sigurður og að verkefnisstjórnin hafi óskað eftir því að kortaútgefendur færu mjúklega í að gera kröfu um staðfestingu með pinni til að tryggja að kortaviðskipti yrðu sem hnökralausust á aðlögunartímabilinu sem nú er að ljúka.

Hann segir það hverjum og einum kortaútgefanda í sjálfvald sett hvenær þeir innleiða endanlegt fyrirkomulag.

Í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins segja stóru viðskiptabankarnir þrír að þeir muni allir innleiða breytinguna; að ekki fáist lengur undanþága frá lykilorðinu með því að ýta á græna takkann, hinn 19. janúar næstkomandi.

„Við fórum fram á það að þeir myndu ekki gera það fyrr en 19. janúar, einfaldlega til að koma upplýsingum til almennings á eins skýran og góðan hátt og kostur er,“ segir Sigurður. Hann segir að í þeim greiðslukerfum þar sem ekki hefur verið óskað eftir pinni, t.d. í flugvélum og netviðskipum, verði hlutirnir óbreyttir frá því sem verið hefur. Það gildir einnig um þau greiðslukort sem innihalda ekki örgjörva, ef segulrönd greiðslukorts er lesin verður áfram beðið um undirskrift.

Fá íslensk kort án örgjörva

„Það er eitthvað af kortum í umferð sem eru eingöngu búin segulrönd,“ segir Sigurður og nefnir erlenda ferðamenn sérstaklega í því samhengi. Þá eru einnig fríðindakort og inneignarkort oftar en ekki einungis búin segulrönd.

Sigurður segir að þeir korthafar sem ekki geta notað pinnið eigi að leita til síns banka eða sparisjóðs og sækja um undanþágu.

„Í samfélaginu eru korthafar sem einhverra hluta vegna geta ekki notað pinnið. Ýmist vegna fötlunar eða af heilsufarsástæðum. Þessir korthafar þurfa að leita til síns banka eða sparisjóðs og sækja um heimild til þess að fá áfram að ýta á græna takkann,“ segir Sigurður en allir kortaútgefendur eru með tilbúnar lausnir fyrir þetta fólk.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka