SUS fordæmir ummæli Ásmundar

Ásmundur Friðriksson.
Ásmundur Friðriksson. mbl.is/Árni Sæberg

Samband ungra sjálfstæðismanna, SUS, hvetur Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, til að biðja íslenska múslima afsökunar á þeim ummælum sínum um að það beri að kanna bakgrunn þeirra múslima sem búa hér á landi. Þá eru ummælin fordæmd.

„Hef­ur bak­grunn­ur þeirra 1500 múslima sem búa á Íslandi verið kannaður og hvort ein­hverj­ir „ís­lensk­ir múslim­ar“ hafi farið í þjálf­un­ar­búðir hryðju­verka­manna eða bar­ist í Af­gan­ist­an, Sýr­land eða öðrum lönd­um þar sem óöld rík­ir meðal múslima. Mér hef­ur ekki áður dottið í hug að spyrja slíkra spurn­inga því ég trúi alltaf á það góða í öllu fólki en það á ekki leng­ur við þegar ör­yggi þjóðar­inn­ar er und­ir,“ seg­ir Ásmund­ur á samfélagsvefnum Facebook.

Ungir sjálfstæðismenn segja mikilvægt að leiðtogar heimsins gefi ekki eftir í baráttunni gegn hryðjuverkahópum eins og Íslamska ríkinu, en reyni jafnframt á sama tíma að sporna við því að minnihlutahópar sæti ofsóknum vegna trúarskoðana sinna. „Það er því virkilega óviðeigandi og til umhugsunar að maður sem á sæti á æðstu stofnun Íslendinga láti ummæli sem þessi falla. Sjálfsögð borgararéttindi minnihlutahópa falla ekki niður vegna hryðjuverkaárása ofstækismanna.

Ummæli Ásmundar eru aðeins til þess fallin að stuðla að félagslegri einangrun múslima á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið mikilvægt afl í mannréttindamálum hér á landi.

Ummæli í þessum dúr eru í engu samræmi við grunngildi flokksins um einstaklingsfrelsi og borgararéttindi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert