Vara við lífshættulegu efni í e-töflum

Taflan sem var efnagreind á sænsku lyfjastofnuninni reyndist innihalda 169 …
Taflan sem var efnagreind á sænsku lyfjastofnuninni reyndist innihalda 169 mg af PMMA.

Lyfjastofnun varar við lífshættulegu efni í e-töflum en tafla sem afhent var sænsku lyfjastofnuninni til greiningar reyndist innihalda efnið PMMA í magni sem getur valdið hækkuðum líkamshita og eitrunaráhrifum sem í versta falli geta leitt til dauða.

Taflan sem afhent var til greiningar er appelsínugul að lit, fimmstrend og með upphleyptan bókastafinn S báðum megin. Töflur með framangreint útlit hafa tengst eitrunartilfellunum sem um ræðir.

Í ljós hefur komið að svipaðar töflur hafa verið í umferð í Hollandi og hafa þær töflur innihaldið PMMA í magni sem telst lífshættulegt. Ennfremur hafa verið tilkynnt fjögur dauðsföll í Englandi og eitt í Skotlandi sem eru talin tengjast þessu hættulega efni. Ekki er hægt að útiloka að töflur með PMMA hafi borist til Íslands.

E-töflur innihalda venjulega MDMA sem er vímuvaldandi efni. PMMA er efnafræðilega skylt og er stundum selt sem e-töflur en er mun hættulegra.

Taflan sem var efnagreind á sænsku lyfjastofnuninni reyndist innihalda 169 mg af PMMA (p-methoxy-N-methylamfetamin) en talið er að 40-50 mg af efninu geti valdið hættulegri hækkun á líkamshita. Efnið getur einnig valdið heilabólgum, blóðrásartruflunum, eyðileggingu á vöðva- og lifrarfrumum, og í alvarlegustu tilfellum dregið neytandann til dauða. Virkni PMMA kemur fram á nokkrum klukkustundum og varir í nokkrar klukkustundir. 

Einkenni eitrunar geta verið skjálfti og svitaköst, og síðan hröð hækkun á líkamshita, hækkuð hjartsláttartíðni og hækkaður blóðþrýstingur. Þegar áfengis er einnig neytt eða ef líkaminn er þurr geta áhrifin verið banvæn. Ef framangreindra einkenna verður vart eftir að ólöglegra fíkniefna hefur verið neytt þarf að hringja strax í Neyðarlínuna 112 og koma neytandanum undir læknishendur eins fljótt og auðið er.

Hætta PMMA-taflna felst meðal annars í því að vímuáhrifin koma seint og þess vegna eru líkur á því að neytandinn haldi að taflan hafi verið veik og leiðist þá til að taka aðra töflu til viðbótar. Þannig aukast líkur á ofskömmtun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert