Heitar umræður um stjórn RÚV

Kosning til nýrrar stjórnar Ríkisútvarpsins fór fram á Alþingi nú síðdegis en áður en hún fór fram urðu heitar umræður um málið í þinginu. Tveir listar voru lagðir fram. Einn frá stjórnarandstöðunni og einn frá stjórnarflokkunum. Listi stjórnarandstöðunnar hlaut 25 atkvæði en listi stjórnarflokkanna 38.

Nýja stjórn skipa: Ingvi Hrafn Óskarsson, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, Eiríkur Finnur Greipsson, Ásthildur Sturludóttir, Kristinn Dagur Gissurarson, Mörður Árnason, Björg Eva Erlendsdóttir og Friðrik Rafnsson. Varamenn eru: Árni Gunnarsson, Sjöfn Þórðardóttir, Katrín Sigurjónsdóttir, Gabríela Friðriksdóttir, Þuríður Bernódusdóttir, Jóhanna Pálsdóttir, Árni Gunnarsson, Hlynur Hallsson og Lilja Nótt Þórarinsdóttir.

Stjórnarandstæðingar sökuðu stjórnarliða um að virða ekki samkomulag sem gert hafi verið í kjölfar þingkosninganna 2013 þess efnis að fjölga ætti stjórnarmönnum úr 7 í 9 og að stjórnarflokkarnir fengju 5 fulltrúa en stjórnarandstæðingar 4. Stjórnarflokkarnir hafi gengið á bak þessu samkomulagi og fyrir vikið haft sex fulltrúa á móti þremur fulltrúum stjórnarandstöðunnar. Þetta hafi þýtt að Píratar hafi ekki haft fulltrúa í stjórninni.

Þingmenn stjórnarflokkanna vísuðu því á bug að hafa svikið samkomulag í málinu og sögðu eðlilegt að miða við að stjórnarflokkarnir hefðu sex menn í níu manna nefndum í ljósi samanlagðan þingmannafjölda þeirra. Þannig væru reglurnar. Stjórnarandstaðan vildi þess í stað miða við það prósentufylgi sem stjórnarflokkarnir hefðu fengið í síðustu þingkosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert