Hraðakstur og framúrakstur orsök banaslyss

mbl.is

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur lokið rannsókn sinni á banaslysi sem varð á Faxabraut á Akranesi 16. maí 2013. Niðurstaðan er að slysið megi rekja til ógætilegs framúraksturs bifhjólamanns og þess að bifhjólinu var ekið á of miklum hraða. Ökumaður bifhjólsins lést í slysinu.

Ökumaður bifhjólsins ók austur Faxabraut á Akranesi um miðjan dag. Veður var gott, þurrt, bjart og norðaustan gola. Hann tók fram úr fólksbifreið áður en hann kom að hraðatakmarkandi koddum í götunni og miðeyju. Samkvæmt vitnum virtist ökumaður bifhjólsins fipast við aksturinn þegar hann ók yfir hraðahindrunina, en náði að halda stjórn á hjólinu þar til hann kom að vinstri beygju sem er 50 metrum austan við hindrunina.

Þegar bifhjólið kom að beygjunni hemlaði ökumaðurinn og afturhjólbarði hjólsins læstist. Greina mátti 18 metra hemlaför á veginum sem enduðu við gangstéttarbrún. Framhjól bifhjólsins lenti á gangstéttarbrúninni og féll hjólið við það. Ökumaðurinn kastaðist af því, yfir grjótvarnargarð og niður í fjöru um sex metrum fyrir neðan veginn.

Ökumaðurinn hlaut lífshættulega áverka í slysinu og lést á sjúkrahúsi að kvöldi slysdags.

Mikil hætta þegar hjól læsast

Í skýrslunni segir að ökumaðurinn, sem var á sextugsaldri, hafi verið staðkunnugur og ekið þessa leið oft áður. Hann var með hjálm og í hlífðarfatnaði en bifhjólið ekki með gilda skoðun þegar slysið átti sér stað. Ekki var hins vegar hægt að rekja slysið til ástands bifhjólsins. Ökumaðurinn var hvorki undir áhrifum áfengis né lyfja.

Hámarkshraði á Faxabraut er 50 km/klst en hraðaútreikningar bent til að hjólinu hafi að verið ekið á að minnsta kosti 71 km/klst rétt fyrir slysið.

Rannsóknarnefndin bendi í skýrslu sinni á mikilvægi þess fyrir ökumenn bifhjóla að þjálfa sig reglulega í viðbrögðum við hættulegum aðstæðum. „Mikil hætta skapast ef ökumaður bifhjóls hemlar þannig að hjól læsast, þegar hjólin hætta að snúast missir ökumaður jafnvægið og hjólið fellur yfirleitt fljótlega á hliðina. Eins er mikilvægt fyrir ökumenn þessara ökutækja að þjálfa vel notkun á framhemlum.

Mun meiri hemlun næst með því að nota framhemilinn, en líkur eru á að ökumaðurinn í þessu slysi hafi ekki beitt framhemli. Þess ber þó að geta að mun hættulegra er að læsa framhjólbarða en þeim aftari, en regluleg þjálfun í að beita báðum hemlum gerir ökumenn færari í að hemla örugglega án þess að hjólin læsist.“

Frétt mbl.is: Banaslys á Akranesi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert