Óbætanlegt tjón ef spítalinn verður notaður til annars

St. Jósefsspítali í Hafnarfirði.
St. Jósefsspítali í Hafnarfirði. Árni Sæberg

Hollvinasamtök St. Jósefsspítala í Hafnarfirði skora á þingmenn að tryggja að áfram verði rekin heilbrigðisstarfsemi í spítalanum sem hefur verið auglýstur til sölu. Það yrði óbætanlegt og óafturkræft tjón ef húsið yrði selt og notað til einhvers annars, að mati samtakanna. Þetta kemur fram í opnu bréfi til alþingismanna sem stjórn samtakanna hefur sent frá sér.

St. Jósefsspítala var lokað árið 2012 við sameiningu við Landspítalann. Hann er í 85% eigu Fasteigna ríkisins og 15% eigu Hafnarfjarðarbæjar. Samtökin telja mikla eftirsjá að starfseminni sem áður var hýst á spítalanum og eftirspurnin eftir henni hafi ekki minnkað frá því henni var lokað.

Hollvinasamtökin samþykktu á fundi í haust uppástungu forráðamanna Hafnarfjarðarbæjar um sölu á spítalanum með kvöðum um heilbrigðisþjónustu. Við það segja samtökin að hafi ekki verið staðið. Einu kvaðirnar sem settar hafi verið í auglýsingu við söluferlið séu hinsvegar svohljóðandi: „að við mat á tilboðunum er heimilt að horfa til þess hvort starfsemi í húsinu til framtíðar tengist heilbrigðisþjónustu”. 

Hollvinasamtök St. Jósefsspítala óska því eftir stuðningi þingmanna við að taka málið upp á Alþingi og við heilbrigðisráðherra og velferðarnefnd Alþingis í þá veru að tryggja að áfram verði heilbrigðisstarfsemi í St. Jósefsspítala. Að mati samtakanna yrði það óbætanlegt og óafturkræft tjón ef húsið yrði selt og notað til einhvers annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert