Víða varasöm færð á vegum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Júlíus Sigurjónsson

Talsverð lausamjöll er yfir öllu eftir snjókomu á suðvestur og vesturlandi í gærkvöldi og í nótt. Um miðjan dag fer að blása frá skilum lægðarinnar sem nálgast landið óðfluga á Suðausturlandi og síðar á Vesturlandi, verður snjókoma og bylur síðdegis og sviptingarnar svo miklar að það hlánar á láglendinu. Þetta segir veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson í samtali við mbl.is. Búist er við nokkurri umferð í dag þar sem víða eru haldin þorrablót þessa helgina.

„Á veginum austur fyrir fjall er líklegt að það verði ansi mikill bylur. Skafrenningur, snjókoma og blint og það verður þannig í kvöld,“ segir Einar.

Hann segir að þegar mikil lausamjöll er þá tekur hún að fjúka um leið og það tekur að hvessa. Við nokkurn vind, 13-15 m/s, verður skyggnið því lítið og þá ótalið ef snjó klingir niður á sama tíma.

Upp úr kvöldmatarleytinu verða miklar vindhviður, sérstaklega undir Hafnarfjalli og utanvert Kjalarnes.

„Þessi lægð er þannig gerð að það fylgir henni mild tunga þannig það hlýnar og hlánar víða á fjallvegum um tíma seint í kvöld og nótt. Það þýðir að það verður vatnselgur á götum í þéttbýli. Sérstaklega suðvestanvert,“ segir Einar.

Einar segir að veðrið fara hratt austur yfir seint í kvöld og nótt. Má gera ráð fyrir hríðarveðri um tíma víðast hvar á fjallvegum. M.a. Vestanlands, Bröttubrekku og Holtavörðuheiði en líka að einhverju leyti fyrir austan. Allt á þetta sammerkt að byrja með skafbyl og nær að blota í stutta stund.

„Það sem gerist þegar blotnar skarpt er að það verður flughált þegar snjór er fyrir á vegum. Versta hálkan er þegar klaki er fyrir á vegum og vindur, mjög varasöm hálka,“ segir Einar.

Hægt er að fylgjast með færð og veðri á vefsíðu Vegagerðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert