Alvarleg líkamsárás í nótt

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Allnokkuð var um tilkynningar af ölvuðu fólki og hávaða frá heimahúsum á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Einn var handtekinn fyrir alvarlega líkamsárás og lögregla beitti piparúða á mann sem var ógnandi á skemmtistað í miðborginni og neitaði að hlýða tilmælum lögreglumanna.

Maður var handtekinn um miðja nótt fyrir alvarlega líkamsárás en sá sló annan sem var fluttur með skerta meðvitund á slysadeild með sjúkrabifreið, að því er kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Tilkynnt um mann á skemmtistað sem braut glas og var ógnandi. Þegar lögregla kom tók hann glerbrot í aðra höndina og var ógnandi. Hann neitaði að hlýða fyrirmælum lögreglu og var piparúða beitt á hann til að yfirbuga hann. Hann var vistaður þar til hægt var að ræða við hann en hann var talsvert ölvaður.

Lögregla þurfti mikið að aðstoða ölvað fólk í miðbænum. Þar á meðal aðstoðaði hún konu sem datt og fékk skurð á höfuðið. Lögregla og sjúkralið aðstoðuðu hana en áverkarnir voru minniháttar. Hún var þó flutt með sjúkrabifreið á slysadeildina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert